138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er afar ánægð að heyra að hæstv. ráðherra hafi gert sér ferð til Reykjanesbæjar í dag, ég er á leiðinni þangað sjálf, er örugglega að verða of sein út af þessum umræðum hérna. En það er gott að ráðherrann hafi farið þangað og kynnt sér málin. Ég er viss um að hún er margs vísari. Varðandi opna pólitíska fundinn í Reykjanesbæ, sem hæstv. ráðherra minntist á, þá get ég útskýrt fjarveru sjálfstæðismanna þar. Þeir voru á fundi með mér annars staðar í bænum. Við vorum að hugsa það hvort við ættum að storma öll á ykkar fund, en það var svo mikið um að ræða hjá okkur að við ákváðum að halda okkar fundi til streitu, þannig að það útskýrir það.

En varðandi það að við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð. Ég vil bara segja það við hæstv. ráðherra að Ísland er í fremstu röð í þessum málum og þar eigum við heima og hvergi annars staðar. Þar erum við sammála. Ég held að við eigum einmitt að leggja áherslu á okkar góðu sérstöðu og hvað við erum framúrskarandi í þessu máli. Ég ætla bara að leyfa mér að vera grobbinn Íslendingur, sem við höfum kannski ekki verið síðastliðið ár, en þarna eigum við að halda merki okkar á lofti, hátt, snjallt og algjörlega laus við alla minnimáttarkennd. Ég hlakka til að fá fulltrúa umhverfisráðuneytisins á fund okkar sjálfstæðismanna og vona að við eigum eftir að eiga í framhaldinu góð skoðanaskipti um þessi mál.