138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:19]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skynsamleg orð og þann skilning sem fólst í orðum hans, þ.e. að það kann að vera rétt að falla frá undanþágu að því gefnu að við áttum okkur á því hvað við höfum í hendi að því loknu.

Mig langar þó til að nefna eitt atriði vegna þess að við tölum alla jafna um að við stöndum okkur svo vel í umhverfismálum en það stafar auðvitað af þeim miklu forréttindum okkar að þurfa minna að nota jarðefnaeldsneyti til húshitunar og raforkuframleiðslu. Staðreyndin er samt sú að einkabílaeign á Íslandi er upp úr öllu valdi. Við þurfum að hugsa um það og í raun og veru er það stóra verkefnið sem fram undan er, eftir að við höfum komist að niðurstöðu um hversu mikið við ætlum að draga úr losun. Hvernig náum við þeim markmiðum? Hvernig ætlum við að ná markmiðum í sjávarútvegi, landbúnaði, samgöngum, neyslu, innkaupum og hegðun almennings til að við getum dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 30 eða 35% miðað við árið 1990? Það þýðir mjög miklar breytingar á hegðun og daglegu lífi þjóðarinnar.

Þetta verkefni verðum við að vinna þvert á stjórnmálaflokka því annars náum við einfaldlega ekki þessum markmiðum. Þetta verkefni er það stórt og mikilvægt. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu til að mynda á það er varðar aðgerðir og undirbúningshóp sem er að búa til aðgerðaáætlun til þess að ná þessum markmiðum, að þar sé aðkoma sveitarfélaga mjög sterk vegna þess að það er grundvallaratriði að sveitarfélögin séu við borðið þegar við förum yfir með hvaða hætti verði dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.