138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir orð hennar. Ég tek undir með henni að við þurfum að fara mjög vísindalega í gegnum það hvernig við getum minnkað útblástur frá bílum, skipum og öðru slíku. Það er mjög skemmtilegt að vita til þess að víða í okkar samfélagi eru ýmiss konar sprotaverkefni þar sem einmitt er hugað að þessu, hvernig við getum t.d. framleitt etanól eða bætiefni sem hægt er að setja út í eldsneyti til þess að nýta það betur og til þess að það mengi minna. Við þurfum að gera það sem við getum til að ýta undir þessa starfsemi. Ég veit t.d. af hugmyndum um að kanna hvort hægt sé að taka t.d. fitu sem kemur frá sláturhúsum, setja hana í gegnum sérstakt apparat og framleiða úr því lífdísil, svo dæmi sé tekið. Við eigum að reyna að ýta undir allar slíkar tilraunir.

Hæstv. ráðherra minntist á sveitarfélögin og þau leika stórt hlutverk í þessu. Þegar við tölum um umhverfismál, ekki endilega bara útblástur, er ýmislegt sem snýr að sveitarfélögunum sem við þurfum að endurskoða eða hafa hugann við. Það eru t.d. reglur varðandi, ég man ekki orðið, það sem kemur frá sveitarfélögunum og fer út í sjóinn, hvað kallast það aftur? (Gripið fram í: Fráveita.) Fráveitu já, ég er nú búinn að fjalla um þetta svo lengi í sveitarstjórn að ég ætti að muna þetta. Varðandi fráveitumálin þá er ekki saman að jafna sjónum í kringum Ísland og lokuðum firði t.d. við strendur Danmerkur eða annars staðar. Við þurfum að skoða stóru myndina. Ég veit að mikill vilji er hjá sveitarfélögum til þess að taka þátt í einmitt þessu starfi sem hæstv. ráðherra nefndi. Mér finnst þessi umræða því mjög góð.