138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:25]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega og skemmtilega ræðu, sem og öðrum þátttakendum í þessari umræðu. Það er samt nokkuð sem truflar mig við ræðu hv. þingmanns sem og annarra sem hér hafa talað og það er þessi hugsun — þetta er í rauninni kannski smá stærðfræði sem um er að ræða — að hrein orka á Íslandi jafngildi hreinum iðnaði í heiminum. Jafnvel þótt iðnaðurinn í grunninn sé mengandi verði hann minna mengandi þar sem við staðsetjum hann hér og notum okkar hreinu orku í hann. Ég vil samt benda á að við eigum náttúrlega ekki endalaust af þessari hreinu orku í fyrsta lagi og verðum að velja hvernig við ákveðum að ráðstafa henni. Við höfum nú þegar ráðstafað miklu af henni í að menga mjög mikið á haus á Íslandi, svo því sé haldið til haga.

Höldum áfram með jöfnuna. Við erum með Ísland, hreina orku og setjum hana í mengandi iðnað því það er betra fyrir heiminn. Á móti notum við mengandi orku í útlöndum í hreinan iðnað af því við gerum ráð fyrir því að fólk annars staðar í heiminum vilji byggja upp atvinnustarfsemi. Hvernig kemur þetta út? Mig langar að heyra aðeins frá hv. þingmanni um þetta. Eru þetta fastar stærðir í heiminum þegar um er að ræða uppbyggingu atvinnulífs?

Hv. þingmaður talaði um að við værum fremst í flokki, sem að mörgu leyti er rétt, þ.e. hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa. Eins og hæstv. ráðherra hefur komið inn á er þó sannarlega ekki hægt að segja að ekkert sé upp á okkur að klaga í þessum efnum. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Eigum við ekki bara að taka forustuna alla leið? Eigum við ekki að muna að þetta eru ekki fastar stærðir, að við höfum ýmislegt til málanna að leggja og við getum tekið þetta miklu lengra og gert miklu flottari hluti (Forseti hringir.) í umhverfismálum í heiminum?