138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:33]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram í tvígang áður. Upphaf hennar hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum sem nú fara fram á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og stefnt er að því að ljúki á 15. aðildarríkjaþingi samningsins í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári.

Jafnframt fjallar þingsályktunartillagan um svokallaða Kyoto-bókun eða íslenska ákvæðið á þeirri loftslagsráðstefnu.

Ég tel að það sé ákaflega mikilsvert að þessi þingsályktunartillaga hafi verið lögð fram í þetta sinnið líka. Ég tel jafnframt og vil koma því að að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir á hrós skilið fyrir að hafa haft frumkvæði að því að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Ég tel nefnilega að hún hafi haft árangur sem kannski gerist ekki alltaf með þingmannamál, að þó að hún hafi komist ekki í gegnum viðkomandi þing náði hún eyrum hæstv. ríkisstjórnar og mér fannst t.d. í ræðu hæstv. umhverfisráðherra áðan miklu jákvæðari tónn í garð þessa íslenska ákvæðis en til að mynda í ræðu hæstv. ráðherra á sumarþingi sem ég hlustaði jafnframt á. Ég fagna og gleðst yfir því að það skuli hafa komið fram í umræðunni hjá hæstv. ráðherra að það sem hún sagði fyrr í sumar, um að rétt væri að koma sér út úr því ástandi að óska eftir undanþágu, hefði kannski verið óheppilegt orðfæri eins og hæstv. ráðherra komst að orði. Ég held að það sé alveg rétt og líka að nauðsynlegt sé að halda til haga hinu íslenska ákvæði.

Það er líka merkilegt fyrir okkur í þessari umræðu að rifja aðeins upp hvaða mikilvægustu hlutir liggja til grundvallar því að upphaflega var sóst eftir þessu íslenska ákvæði um undanþágu. Það er auðvitað augljóst og er talið upp í greinargerðinni í einum fimm liðum. Þar eru tveir liðir þó mikilvægastir og ég ætla að nefna þá aðeins. Það er augljóst að sú sérstaða sem Ísland býr við, að hér skuli vera gnótt endurnýjanlegra orkulinda og að við skulum nýta þær í þeim mæli sem við höfum gert — ég man ekki prósentutöluna af því sem við erum komin með í hlutfalli við aðrar þjóðir, talan 86% situr einhvers staðar í höfðinu á mér — gerir það að verkum að við erum þar langt framar öllum öðrum þjóðum. Mig minnir að Norðurlöndin komi þar eitthvað á eftir okkur, Svíar eða Norðmenn, líklega Svíar, með 40% þannig að við erum svo langfremst þjóða í að nýta endurnýjanlega orkugjafa til góðra hluta, m.a. í stóriðju sem eins og komið hefur fram í umræðunni mengar mun minna fyrir vikið, sex eða átta sinnum, en ef viðkomandi stóriðja væri til að mynda í Evrópu þar sem menn byggja kolaver enn þann dag í dag. Eins og áður hefur komið fram í máli mínu í þessum ræðustól er í Rotterdam-höfninni verið að byggja orkuver sem er tvöföld megavattastærð Kárahnjúkavirkjunar og það brennir kolum til að gefa orku til ýmissa þátta í Evrópu, örugglega þar með talið iðnaðar.

Hitt mikilvæga atriðið sem kemur fram í greinargerðinni er sú sérstaða að á árinu 1990 menguðu Íslendingar kannski miklu minna en þjóðir sem við berum okkur saman við í dag og teljast til þessara iðnaðarþjóða. Þó má halda því fram að ef viðmiðunarárið væri til að mynda 2008 væri kvóti Íslands í þessari loftslagsmengun mun stærri og við þyrftum hugsanlega ekki að sækja okkur þessar undanþágur eða óska eftir sérákvæðum þrátt fyrir þá staðreynd að við værum með stóran hluta orku okkar í endurnýtanlegri og endurnýjanlegri orku. Það er augljóst að þessir tveir hlutir gera það að verkum að sérstaða Íslands er gríðarleg og ég held að við eigum að gæta allrar varúðar og reyna að berjast fyrir okkar ýtrustu hagsmunum í samningaviðræðunum og á öllum vettvangi vegna þess að þetta er sannanleg sérstaða sem aðrar þjóðir hafa ekki. Ég ætla að taka aðeins undir það sem hér kom fram hjá öðrum hv. þingmönnum. Ég tel það eiginlega þinginu til vansa að við skulum ekki senda breiða sendisveit úr þinginu til Kaupmannahafnar til að mæta á þessa loftslagsráðstefnu því að þetta er svo sannarlega hagsmunamál á Íslandi og hlýtur að vera áhugaefni allra þingflokka að koma þar að og fylgjast með.

Hér hefur aðeins verið til umræðu sú staðreynd að á síðustu árum höfum við byggt upp talsverða stóriðju og þar af leiðandi höfum við mengað talsvert þegar menn telja á haus. Hér hefur því jafnvel verið velt upp að við leggjum lítið til alheimsins í umhverfismálum og stöndum okkur ekki nægilega vel. Auðvitað getum við staðið okkur mun betur. Við getum til að mynda alveg klárlega tekið upp betri hætti í sambandi við bifreiðaeign og eldsneyti á bifreiðar eins og hér hefur komið fram, bæði í máli hæstv. ráðherra og eins nokkurra hv. þingmanna. Ég veit ekki betur en að að því sé unnið með til að mynda svokallaðri endurnýtingu á kolefni í Svartsengi, „carbon recycle“ verksmiðjunni þar sem meiningin er að vinna metanól úr m.a. kolefni til að setja á bensín til að minnka kolefnis- eða koltvísýrlingsútstreymismengun frá bifreiðum. Á sama hátt er unnið að kolefnisbindingu hjá Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði og fleiri slík verkefni mætti telja upp. Kannski er mikilvægasta verkefnið okkar til alheimsins og það sem við höfum gert hvað best sú staðreynd að við nýtum jarðvarmann í stórum stíl til upphitunar húsa á Íslandi og spörum þar af leiðandi verulega mengun til alheimsloftslagsmengunarinnar og jafnframt höfum við flutt út þekkingu á jarðvarmaleit og jarðvarmavirkjunum til alheimsins. Það er kannski einna mikilvægasta verkefnið okkar til að hjálpa til við að minnka mengun í alheiminum fyrir utan það, eins og réttilega hefur komið fram, að stóriðja á Íslandi mengar auðvitað mun minna en væri hún til að mynda á Rotterdam-svæðinu og notaði kolaver sem orkugjafa.

Því held ég að okkur sé nauðsynlegt að rifja það upp öðru hvoru að við erum rúmlega 300.000 manna þjóð og þau verkefni sem við erum að vinna að á þessu sviði, þ.e. jarðvarmaþekkingunni sem við erum að breiða út frá okkar landi sem við höfum náttúrlega öðlast í gegnum virkjanir og orkuleit í áratugi, eru gríðarlega stór og merkileg verkefni sem við eigum að vera stolt af. Jafnframt eigum við að vera gríðarlega stolt af því að við höfum getað byggt upp þessa endurnýjanlegu orkugjafa og nýtt orkuna til að framleiða m.a. ál og aðra hluti á hagkvæmari og minna mengandi hátt en annars staðar er gert. Við eigum bara að muna það. Við erum 300.000 manna þjóð. Við getum vissulega lagt okkar til og ég held að við gerum það allvel.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að ítreka það sem stendur í upphafi þingsályktunartillögunnar og rifja það upp sem ég sagði áðan um að hvetja ráðherra og þá sem munu fara fyrir Íslands hönd í samningaviðræðurnar og á þessa loftslagsráðstefnu, sem við vitum auðvitað ekki hvort skilar ásættanlegum eða neinum árangri, til að þar verði okkar ýtrustu hagsmuna gætt.