138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:43]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir ræðuna. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í umræðunni að þessi þingsályktunartillaga er gagnleg vegna þess að hún hefur vakið upp umræðuna og sýnir okkur að það þarf að ræða þetta oft vegna þess hversu snúið það er tæknilega að mörgu leyti. Einn hv. þingmaður framsóknarmanna, Guðmundur Steingrímsson, er ekki á þingsályktunartillögunni og mér finnst það umhugsunarefni, sérstaklega í ljósi þess að í umræðunum hefur það komið fram og verið ítrekað af nokkrum sem telja sig til flutningsmanna að mikilvægast sé að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðunum þó að það kunni að fela í sér að íslenska ákvæðið verði fyrir bí vegna þess að okkur auðnist að koma þeim hagsmunum fyrir með öðrum hætti. Ég verð að segja að mér finnst það vera niðurstaða umræðunnar að allra mestu leyti, mér finnst það liggja í loftinu, en vil árétta við hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson að til þess að þessi kerfisbreyting 2013 gangi snurðulaust fyrir sig verðum við að tryggja að loftslagssamningurinn stangist ekki á við þetta nýja kerfi. Þetta gerist ekki hjá ESB-ríkjunum vegna þess að þau taka á sig sameiginlega skuldbindingu eins og þau gerðu í Kyoto-bókuninni og þá er bara viðskiptakerfið hluti af þessari innri framkvæmd en Ísland tekur á sig sjálfstæðar skuldbindingar hingað til í loftslagssamningnum og þess vegna er snúið að vera með sjálfstæða skuldbindingu annars vegar og vera hins vegar partur af þessu viðskiptakerfi.

Þess vegna hefur tæknilega verið býsna snúið að vinda ofan af þessu og ég hef miklar væntingar til þess að umræður í þingflokkunum við sérfræðinga umhverfisráðuneytisins hvað varðar einstaka tæknilega útfærsluþætti í þessu geti skilað þeim árangri að menn geti talað sig inn í einn straum og einn skilning á því sem hér er á ferðinni.