138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. Anna Pála Sverrisdóttir hafi á einhvern hátt misskilið þingsályktunartillöguna ef hún telur að í henni felist ósk okkar um að menga sem mest því að það er klárlega ekki innihald þingsályktunartillögunnar. Þingsályktunartillagan snýst um að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands við að nýta þessa afar góðu orku sem við hv. þingmaður erum sammála um að við Íslendingar geymum og getum nýtt og nýtum nú þegar. Við hv. þingmaður erum líka sammála um að okkur hefur tekist það mætavel, ekki síst á sviði jarðvarmaleitar, virkjunar, Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og á fleiri slíkum sviðum í þessu máli. Satt best að segja, af því að hv. þingmaður velti fyrir sér hvernig staða okkar væri á haus, erum við langfremst í þessu tilliti, framar öllum.

Varðandi það hvernig ég mundi svara íbúa frá Bangladess um af hverju við megum menga svona mikið og Bangladess íbúar lítið, er það einfaldlega hin endurnýjanlega orka okkar enn og aftur sem skapar okkur þessa sérstöðu. Við framleiðum alls kyns vörur með okkar góðu orku sem mengar þar af leiðandi miklum mun minna en aðrir orkugjafar. Ég þekki svo sem ekki nákvæmlega hvernig ástandið er í Bangladess en minnist þess þó að hafa séð sjónvarpsþátt með hörmulegum umhverfisslysum á ströndum Bangladess þar sem íbúar þess fátæka lands rifu niður skip og aðra hluti með berum höndum. Umhverfismengun Bangladess, á ströndum þess lands og meðal íbúanna, er því miður hörmung og ég held að það sé verkefni sem við Íslendingar og alheimurinn þurfum að snúa okkur að.