138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:55]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir svarið. Mér fannst þetta athyglisvert, mér fannst ég hlusta þarna á talsmann ríkra Vesturlandabúa tjá sig gagnvart þróunarlöndunum. Loftslagsumræðan öll snýst auðvitað það að mjög miklu leyti, ef við förum aðeins út fyrir þrönga hagsmuni Íslands af því að menga meira, sem þessi þingsályktunartillaga snýst vissulega um. Ef ekki það, þá hvað?

Þessi umræða snýst að mjög miklu leyti um Vesturlönd með iðnríkjunum, sem Ísland tilheyrir, gagnvart þróunarlöndunum. Það er „absúrd“ mikill munur á því hvað við mengum á íbúa miðað við t.d. íbúa í Bangladess, svo eitt tilviljanakennt dæmi sé tekið, það er ekki afsakanlegt að ætlast til þess að við getum mengað meira til að halda íbúum Bangladess frá því að byggja upp ríki sitt.

Það er aðeins fleira sem mig langar til að spyrja hv. þingmann um fyrst við ræðum um að Ísland fái að bæta við sig heimildum til að menga heiminn meira: Fyndist hv. þingmanni í lagi að Íslendingar mundu menga mest þjóða á íbúa á grunni einhverrar slíkrar undanþágu? Væri æskileg staða fyrir okkur að verða heimsmeistarar í mengun miðað við höfðatölu, af því að nú er staðan sú að við mengum svo mikið? Það er ekkert ofboðslega langt í það og ég verð að segja að það er ekki titill sem ég væri stolt af að bera.