138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[20:18]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi Hreyfingarinnar þar sem bent er á mikilvægan lýðræðishalla sem farið hefur fram hjá mörgum í allt of langan tíma. Fjöldi kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu virðist vera í litlu samræmi við íbúafjölda. Frumvarpið var rætt meðal kjörinna fulltrúa Vinstri grænna, bæði á sveitarstjórnarstiginu og hér á Alþingi. Okkur fannst nokkuð hratt farið í fjölgun sveitarstjórnarmanna í þessu frumvarpi þar sem við efumst um að stjórnsýslan á sveitarstjórnarstiginu ráði við svo mikla fjölgun á einu bretti. Því langar mig til þess að spyrja hv. þm. Þór Saari hvort hann geti sætt sig við að farið verði í þessa breytingu í nokkrum áföngum, t.d. í tvennum til fernum kosningum?