138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[20:25]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Virðulegi forseti. Í kvöld mælir Hreyfingin fyrir máli sem lýtur að lýðræðisumbótum og nái það fram að ganga mun það auka verulega möguleika fólks til þess að hafa bein áhrif á nærsamfélag sitt. Í dag er kveðið á um ákveðinn hámarksfjölda sveitarstjórnarmanna en í löndunum í kringum okkur er kveðið á um lágmarksfjölda. Lýðræðið hér á landi er því lágmarkað en ekki hámarkað.

Fyrir 200 árum var gerð bylting á Íslandi. Hingað komu sápukaupmenn og í för með þeim var Jørgen nokkur Jørgensen sem við höfum kallað Jörund hundadagakonung. Jörundur og félagar hans byltu Íslandi með því að hengja upp tvær tilkynningar. Sú fyrri var í 11 liðum sem kváðu meðal annars á um að allur danskur myndugleiki skyldi vera upphafinn á Íslandi og að Danir héldu sig innan dyra. Sú seinni var aðeins lengri og tjáði íbúum þessa lands að Ísland væri laust og liðugt frá Danmerkur ríkisráðum og að títtnefndur Jörundur væri forsvarsmaður landsins þar til regluleg landstjórn er ákvörðuð, eins og það er orðað í tilkynningunni. Þetta gekk upp, reyndar bara í tvo mánuði, vegna þess að Íslendingar voru ekki vanir því að geta haft áhrif á stjórnun landsins og umhverfisins. Þegar Danir náðu aftur völdum hreyfðu íslenskir borgarar heldur hvorki legg né lið til að halda nýfengnu frelsi.

Nú 200 árum síðar hefur mikið vatn runnið til sjávar. Lýðveldið Ísland var stofnað árið 1944 og margt hefur færst í átt til virkara og víðtækara lýðræðis. Þó er margur akurinn óplægður enn. Herra forseti. Ég er nýkomin úr minni fyrstu kjördæmaferð með þingmönnum Suðurlands. Það er mikill munur að kynnast sveitarstjórnarmönnum á landsbyggðinni þar sem lýðræðishallinn er mun minni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Í sveitarstjórnum á landsbyggðinni eru í flestum tilfellum mun færri atkvæði á bak við hvern sveitarstjórnarmann en á höfuðborgarsvæðinu. Mér virðast sveitarstjórnir í minni samfélögum endurspegla þau samfélög sem þær eru sprottnar úr og eiga að þjóna mun betur. Fólkið þar er mun raunverulegra og minna „fótósjoppað“ en frambjóðendur í stærri byggðarlögum þar sem baráttan um örfá sæti er mun harðari og kostnaðarsamari fyrir frambjóðendur.

Við sameiningu sveitarfélaga er veruleg hætta á að íbúar minni sveitarfélaga glati bæði rödd sinni og áhrifum vegna þess hve sveitarstjórnarmenn eru fáir. Nærtækt dæmi um þetta er sameining Reykjavíkur og Kjalarness, eða ættum við kannski að segja yfirtaka Reykjavíkur á Kjalarnesi? Við þá sameiningu misstu íbúar Kjalarness öll áhrif sín. Kjalarnes er ekki venjulegt hverfi í Reykjavík, það hefur mikla sérstöðu og þarfir íbúanna eru að mörgu leyti aðrar en annarra Reykvíkinga. Þeir hafa hins vegar enga rödd í stjórn borgarinnar eða raunveruleg áhrif.

Mér finnst það spennandi hugmynd, herra forseti, að gefa fólki frekara tækifæri til þess að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi. Ég held að okkur sé hollt að heyra fleiri raddir frá fleiri aðilum en bara hefðbundnum stjórnmálaflokkum. Mér þætti bæði gaman og viðeigandi að íbúasamtök, t.d. Breiðhyltinga eða Árbæinga, gætu tekið sig saman og boðið fram til borgarstjórnar eða ýmis hagsmunasamtök sem vilja gera bragarbót í málefnum sínum, t.d. samtök um bíllausan lífstíl eða félag hundaeigenda, sem hefur reyndar enn ekki verið stofnað mér vitanlega en væri örugglega ágætisfélag sem gæti haft góð áhrif á sveitarfélagið sitt.

Í því bæjarfélagi sem ég bý í hafa sömu flokkarnir verið einráðir í næstum 20 ár og sá stærri haft öll tögl og hagldir, lengst af undir stjórn manns sem nýlega sagði af sér vegna ásakana um spillingu. Í allan þann tíma hefur minni hlutinn verið nánast áhrifalaus. Bæjarfulltrúar eru 11 og það hefur verið viðtekin venja að fimm þeirra séu hunsaðir. Það eru því einungis sex bæjarfulltrúar í þessu tæplega 30.000 manna bæjarfélagi sem ráða nánast öllu. Það er því einn sem hefur völd á hverja 5.000 íbúa. Þetta látum við viðgangast, einungis vegna þess að það er hefð fyrir því, rétt eins og Jörundi tókst að hertaka heilt land með litlu meira en tveimur tilkynningum og Dönum tókst að ná því aftur án nokkurrar andstöðu Íslendinga.