138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[20:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmönnum Hreyfingarinnar að hafa hreyft við þessu máli og að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum er fyrst og fremst varðar fjölda sveitarstjórnarmanna í mismunandi stórum sveitarfélögum. Ég þáði það að vera meðflutningsmaður á frumvarpinu með þingmönnum Hreyfingarinnar þar sem mér fannst áhugavert að opna á þá umræðu sem þau hafa komið inn á, hv. þingmenn Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari. Ekki er þar með sagt að ég mundi skrifa nákvæmlega upp á tæknilega útfærslu á því hversu margir aðalmenn eigi að vera á bak við hvern tug þúsunda eða hundrað þúsund íbúa, það er kannski útfærsla tæknilegs eðlis sem væri eðlilegt að færi fram í viðeigandi þingnefnd. Það er hins vegar sláandi að velta því fyrir sér, eins kom fram í greinargerðinni og ágætri yfirferð hv. þm. Þórs Saaris, að fyrir 100 árum voru bæjarfulltrúar í Reykjavík jafnmargir og þeir eru í dag þrátt fyrir að íbúafjöldinn hafi fimmtánfaldast. Það segir okkur að menn hafa ekki hugsað til hlítar hvaða þróun hefur átt sér stað á sveitarstjórnarstiginu hvað varðar fulltrúa í bæjum eða sveitum eða borg.

Ég átti þess kost fyrir nokkrum árum að fara með hópi sveitarstjórnarmanna í ferð til Norðurlanda þar sem við kynntum okkur fyrst og fremst skipulagsmál en í leiðinni ræddum við auðvitað sveitarstjórnarmál við þá aðila sem við hittum í þremur löndum. Það kom mér nokkuð á óvart þó að ég hefði þá verið í sveitarstjórn í 12 eða 14 ár með hvaða hætti sveitarstjórnarstigið virkaði á Norðurlöndum og þessi gríðarlegi fjöldi sveitarstjórnarmanna. Hugsun mín var fyrst og sem ég hef heyrt hjá mörgum þingmönnum eða almenningi og þau viðbrögð sem þetta frumvarp fékk þegar það birtist fyrst almenningi að menn veltu því fyrir sér að hér væri galin hugmynd um að auka kostnað á sveitarstjórnarstiginu og fjölga pólitískum smákóngum á sveitarstjórnarstiginu hingað og þangað. Það er svo langt í frá. Í þeim sveitarfélögum á Norðurlöndunum þar sem við ræddum við menn kom það einmitt í ljós að sveitarstjórnarmenn voru alls ekki „sveitarstjórnarkommisserar“ í sínu byggðarlagi, langt í frá. Þeir voru kjörnir fulltrúar sem komu fyrst og fremst að stefnumótun en voru hvergi í hinum daglega rekstri. Hinum daglega rekstri var stjórnað af þar til kjörnum yfirmanni, oddvita, eða „ordfører“ eins og það heitir gjarnan á Norðurlöndunum, og síðan af ráðnum framkvæmdastjóra og embættismönnum viðkomandi sviðs. Aftur á móti voru hinir kjörnu fulltrúar þátttakendur í stefnumótuninni og þeir voru líka þátttakendur í nefndum. Þeir voru hins vegar ekki í fullu starfi sem kjörnir fulltrúar að vasast í daglegum rekstri. Að því leytinu fannst mér áhugavert að taka þátt í framlagningu á þessu frumvarpi og gera tilraun til þess á tímum sem við þurfum virkilega að ræða það að skapa nýtt Ísland og öðruvísi samfélag að á sveitarstjórnarstiginu væri áhugavert að reyna að taka pólitíkina út úr daglegum rekstri og láta sveitarstjórnarfulltrúana sjá um stefnumótun fyrst og fremst.