138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[20:34]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr):

Herra forseti. Ég þakka þær viðtökur sem málið hefur fengið þó að ekki hafi verið margir í þingsalnum. Það kemur auðvitað mörgum á óvart að það skuli þurfa að ræða lýðræðið í sveitarstjórnum en ekki hefur verið hefð fyrir því.

Mig langaði að tæpa á tveimur atriðum frá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni. Annars vegar um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og það er minn draumur, hafandi búið í Reykjavík og búandi núna úti á Álftanesi, að þessi sveitarfélög sameinist, alla vega að stórum hluta. Það væri skipulagslega séð fráleitt að gera það ekki, við sjáum bara hvernig málin eru í dag og með fleira fólki í þeirri sveitarstjórn sem þar yrði í kjölfarið gæfist fólki í öllum þessum nágrannasveitarfélögum einmitt færi á að taka beinan þátt í stjórnun þess sveitarfélags.

Hitt var mál sem sneri að kostnaði. Ég held að það sé rangt að gera því skóna að kostnaður við borgarstjórn Reykjavíkur mundi margfaldast í hlutfalli við fjölda borgarfulltrúa, ég held að hann mundi ekki gera það. Vissulega mundi einhver kostnaður hljótast af og einhver húsnæðiskostnaður að auki líka en við megum ekki láta einhvern ákveðinn skort á fermetrum ráða því hversu mikið lýðræði við höfum, lýðræðið er dýrmætara en það. Ég sé ekki betur af því sem ég sé af sal borgarstjórnar Reykjavíkur en að þar rúmist vel fleiri en þeir 15 sem þar sitja og svona reyna að dreifa úr sér yfir allt gólfið eins og þeir mögulega geta.

Ég fagna þessari umræðu og eftir því sem mér hefur verið tjáð á meðan á umræðunni stendur fer þetta mál til samgöngunefndar en ekki til allsherjarnefndar og við munum bara reyna að fylgja því eftir þar inni með öllum tiltækum ráðum.