138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

skilaskylda á ferskum matvörum.

22. mál
[20:36]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum. Meðflutningsmenn ásamt mér eru 11 þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að móta reglur um skilaskyldu á ferskum matvörum í verslunum, til þess að tryggja eðlilegt og sanngjarnt samkeppnisumhverfi innlendrar matvælaframleiðslu.“

Þessi tillaga var flutt á 136. löggjafarþingi en fékk þá ekki afgreiðslu og er því endurflutt núna.

Mikil umræða hefur átt sér stað um svokallaða skilaskyldu á ferskum matvörum. Skilaskyldan felur í sér að kjósi verslunareigandi svo, getur hann sér að kostnaðarlausu krafist þess að framleiðandi taki til baka framleiðsluvörur sem eru að nálgast síðasta söludag. Þetta á við um íslenskar matvörur en ekki þær erlendu.

Margir íslenskir matvælaframleiðendur telja að þetta fyrirkomulag skapi mikla skekkju í samkeppnisumhverfinu. Innlendir framleiðendur þurfi að bera kostnað af þeirri rýrnun sem hlýst af því að vöru er skilað en sá sem flytur inn matvörur geti komið ábyrgðinni og kostnaðinum af sér yfir á herðar kaupmannsins. Þetta fyrirkomulag leiði síðan til þess að það skapist hvatning fyrir seljanda vörunnar að halda fremur fram þeirri vöru sem ekki er með skilaskyldu, til þess að tryggja að kostnaðurinn af rýrnun falli ekki á hann.

Þau sjónarmið hafa á hinn bóginn heyrst af hálfu seljenda að í skilaskyldu felist trygging fyrir því að ekki verði óeðlileg birgðasöfnun í verslun, með tilheyrandi kostnaði og rýrnun sem að lokum falli á neytendur í hærra vöruverði. Þess ber þó að geta að margir birgjar sjá sjálfir um að fylla á í búðunum og stýra magni, að minnsta kosti að mestu leyti. Mjög mikilvægt er að um þessi mál gildi sanngjarnar leikreglur sem tryggi samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi hinnar gríðarlegu samþjöppunar í matvöruverslun sem hefur orðið hér á landi, þar sem tvær verslunarkeðjur ráða drýgstum hluta markaðarins.“

Eins og við vitum fer fram mikil umræða einmitt um stöðu smásöluverslunarinnar og stöðu þess stærsta á þeim markaði og það finnst mér líka vera tilefni til þess að þessi mál séu borin hérna sérstaklega upp. Það eru auðvitað sífellt vakandi spurningar um samkeppni í landinu og það er mjög óeðlilegt eins og þessi mál hafa þróast til að mynda á smásölumarkaðnum þar sem tvær keðjur nánast ráða þessum markaði og sú þriðja kemur þar í kjölfarið og ræður síðan stórum hluta af því sem eftir er.

Þetta er alvarlegt og vont ástand og getur haft í för með sér markaðslega misnotkun. Undan því kvarta mjög margir, birgjar, framleiðendur, bændur, afurðasölufyrirtæki o.s.frv. Það er hins vegar þannig að fá þeirra þora að segja þetta upphátt vegna þess að þau eiga allt undir því að geta selt vörur sínar greiðlega til þessara stóru smásölukeðja. Þess vegna er mikilvægt að hafa um þetta skýrar leikreglur. Sú tillaga sem hér er lögð fram sem kannski lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn, er tilraun til að setja slíkar sanngjarnar leikreglur sem gera það að verkum að íslenskir framleiðendur, íslenskir birgjar, íslenskar afurðasölustöðvar svo dæmi séu tekin, hafi sanngjarnan grundvöll til að keppa á en séu ekki sett í þá stöðu að þurfa að lúta í öllu vilja þeirra sem kaupa af þeim vöruna, í ljósi þess og í krafti þess að þarna er um að ræða risa sem þeir eru fást við sem þeir eiga allt sitt undir og þurfa þess vegna að sitja og standa eins og sá sem öllu ræður í þeim efnum, segir og skipar.