138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú liggja í allsherjarnefnd tvö frumvörp um persónukjör. Þar er lagt til að kjósendur raði frambjóðendum á þeim lista sem þeir hyggjast kjósa í þá röð sem þeir vilja að frambjóðendur nái kjöri í kjörklefanum. Fram hefur komið að framboð Vinstri grænna hefur fyrirvara við frumvarpið og hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vakið sérstaka athygli á því. Ef ég fæ skilið rétt sjá þeir þess vegna annmarka á því að þingið taki málið til umfjöllunar. Til að skera úr þessum vafa mínum langar mig til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd, hvort afstaða vinstri grænna til persónukjörs valdi því að sjálfstæðismenn geti ekki tekið afstöðu til þessa og rætt þetta mikilvæga mál í þinginu.

Í þessu sambandi er rétt að árétta að margar aðferðir eru til við persónukjör og fram hefur komið að sum okkar í þessum sal vildum ganga lengra en frumvörpin gera ráð fyrir og leyfa kosningu þvert á flokka eða lista. Ég er þó eindregið þeirrar skoðunar að hvert hænuskref í þessum málum sé til bóta og spyr því hvort það sé virkilega rétt skilið hjá mér að sjálfstæðismenn geti ekki tekið afstöðu í málinu vegna þess að vinstri grænir hafa fyrirvara á því. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn …) [Hlátur í þingsal.]