138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fara dálítið mikla krókaleið til að beina máli sínu til vinstri grænna [Hlátur í þingsal.] því að hér í landinu er auðvitað ríkisstjórn og hér á þingi hefur manni skilist að sé ríkisstjórnarmeirihluti. Frumvarpið um persónukjör er lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og hefur verið samþykkt í báðum stjórnarflokkunum eftir því sem mér skilst. Hins vegar liggur fyrir afstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem flokks. Afstaðan er skýr, Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill að frumvörpum um persónukjör verði vísað til stjórnlagaþings. Það kemur skýrt fram í umsögn vinstri grænna sem send var allsherjarnefnd í september. Undir þá umsögn ritar stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem formaður er Steingrímur Sigfússon, varaformaður hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir og einnig situr þar hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir.

Við áttum í vandræðum með að átta okkur á þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) sem birtist í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Við höfum lýst því yfir, af því að hér er spurt úr sal, afstaða Sjálfstæðisflokksins kom skýrt fram í umræðum hér í síðustu viku. Við höfum mikinn áhuga á því að ræða hugmyndir um persónukjör á breiðum grundvelli, við höfum mikinn áhuga á því. Við lýstum því hins vegar mjög skýrt yfir að við teldum ekki tímabært að ráðast í þessar breytingar með sveitarstjórnarkosningar næsta vor í huga og við teljum að þingið hafi mörgum öðrum brýnni verkefnum að sinna á næstu vikum. Það eru fimm vikur eftir af starfstíma þingsins til jóla og við teljum miklu mikilvægara fyrir okkur að ræða alvarlega stöðu í efnahagsmálum, alvarlega skuldastöðu heimila og fyrirtækja og hvaða leiðir við eigum að fara til að ná okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í. (Forseti hringir.) Varðandi sveitarstjórnarkosningar næsta vor teljum við ótímabært að taka upp persónukjör. Það hefur komið skýrt fram.