138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Sjálfstæðismenn fara mikinn í gagnrýni sinni á skattahækkanir. Fyrir það fyrsta vil ég taka fram að aðlögunarþörf sú sem fer fram núna á fjárlögum er blönduð leið þar sem u.þ.b. helmingur af aðlögunarþörfinni fer fram í gegnum niðurskurð (Gripið fram í.) og helmingur í gegnum skattahækkanir. Hér erum við að hreinsa upp eftir óstjórn efnahagsmála undanfarin ár [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Hvar er hugmyndin?) svo við höfum það bara algerlega á hreinu. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)

Frú forseti. Fjölmargar hugmyndir eru til skoðunar og eru enn þá í vinnslu innan stjórnarliðsins um hvernig beri að haga sér í að hreinsa upp eftir óstjórn efnahagsmála hér undanfarin ár. (Gripið fram í: Á að hreinsa …?) Við skulum bara hafa það á hreinu að ábyrgir stjórnmálaflokkar og ábyrgir stjórnmálamenn gera sér grein fyrir þeirri aðlögunarþörf sem er fram undan. Hins vegar getur stjórnarandstaðan í þessu landi leyft sér að vera með lýðskrum og það er akkúrat það sem er í gangi í þessum þingsal í dag og í gær. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Allar þessar hugmyndir [Háreysti í þingsal.] eru enn þá til skoðunar, engar ákvarðanir hafa verið teknar en stjórnarandstaðan hér á þingi leyfir sér að fara fram með lýðskrum. (Gripið fram í: Svaraðu …) Ábyrgir stjórnmálamenn taka ákvarðanir sem eru kannski ekki vinsælar, en þær eru (Gripið fram í: Svaraðu …) teknar af ábyrgð. [Háreysti í þingsal.] Stjórnarandstaðan í þessu landi getur leyft sér að fara fram með lýðskrum og vera þá óábyrgir stjórnmálamenn. [Háreysti í þingsal.]