138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera svo grófur að reyna að spyrja stjórnarliða. Ég el þá von í brjósti að hér komi málefnalegt svar og vil að gefnu tilefni biðja hv. stjórnarliða að reyna að nálgast það með öðrum hætti en svo að reyna að gera allt saman ótrúverðugt þegar menn eru hér einfaldlega að svara spurningum sem allir eru að spyrja sig, allir, öll þjóðin. Það er hrein og klár vanvirðing við þingið að tala eins og hv. stjórnarliðar tala hér, ekkert annað, og mæta hér með þennan skæting og þessa framkomu. Þetta er ekki vanvirðing við okkur hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, [Hlátur í þingsal.] maður fær fínar sendingar núna, virðulegi forseti, ég ætla ekki að fara yfir það, [Hlátur í þingsal.] heldur er það vanvirðing við þjóðina sem bíður núna og vill fá svör við þeim spurningum sem eru uppi og koma fram í fjölmiðlum og finnst eðlilegt að þetta sé rætt í þingsölum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Lilju Mósesdóttur um ákveðið stórmál. Hv. þingmaður tók vel í þá málaleitan að fá forsvarsmenn bankanna á fund og var það gert á mánudaginn þar sem farið var yfir stöðuna hvað varðar afskriftamál fyrirtækja. Í örstuttu máli var ekki skemmtileg lífsreynsla, þó að þessir aðilar hafi staðið sig mjög vel, að þurfa að hlusta á það. Það kemur í ljós að það eru engar samræmdar reglur, eftirlitið er ekki skýrt, lagaramminn er ekki skýr, gegnsæi er ekki tryggt og hagsmunir bankanna fara oft gegn samkeppnissjónarmiðum. Þetta er þvert á það sem ég held að menn hafi haldið að framkvæmdarvaldið ætlaði að beita sér fyrir núna á þessu ári. Það er því algerlega ljóst að framkvæmdarvaldið hefur brugðist í þessu mikilvæga máli og ég bið, virðulegi forseti, hv. þingmann um að fara í þá vinnu með okkur að hv. viðskiptanefnd beiti sér fyrir því að bætt verði úr þessum málum. Það er mikilvægt (Forseti hringir.) að það sé þverpólitísk samstaða um það og ég spyr hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort hún sé til í að stíga þann dans með okkur. Það er mjög mikilvægt fyrir þjóðina.