138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða skattamál eða hreingerningar en vil þó segja í sambandi við hreingerningar að þar verður auðvitað að taka með í reikninginn að hluti af hreingerningastarfinu núna er að þrífa upp eftir gríðarlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs á árunum 2007–2009, sem sé í aðdraganda hrunsins, og auk þess könnumst við öll við gríðarlega aukningu á söfnun inn á erlenda innlánsreikninga á vegum íslensku bankanna sem fóru fram á þessu sama skeiði. Ég held að við verðum einfaldlega öll hér inni að horfast í augu við það að orsakir vandans koma víða að og eru ansi margþættar.

Ég ætla hins vegar að tala um störf þingsins í þrengstu merkingu þess orðs, sem sagt hvernig við störfum. Ég ætla að tala hér sem fulltrúi Framsóknarflokksins í nefnd um fjölskylduvænt þing. [Hlátur í þingsal.] Við komum saman þrisvar og þáðum ágæta fjölskylduvæna súpu og brauð og ræddum ákveðin viðmið sem ættu að vera höfð að leiðarljósi í starfinu fram undan og síðan ætluðum við að kanna hvernig til mundi takast að starfa í samræmi við þessi viðmið. Ég held að það sé hægt að segja alveg nú þegar, strax á miðju haustþingi, að þetta hefur algjörlega mistekist. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Við lögðum áherslu á það, nokkur í nefndinni, að það yrði ákveðinn fyrirsjáanleiki í störfum þingsins, að við vissum sem sagt hvað við værum að fara að ræða um í upphafi vikunnar, að við vissum hvað yrðu margir kvöldfundir og svoleiðis. Þetta hefur algjörlega brugðist. Til dæmis í morgun gerði ég tilraun, ég sat við tölvuna mína og ýtti á „refresh“ nokkrum sinnum til að athuga hvort það væri komin dagskrá fyrir morgundaginn. Hún var ekki komin klukkan hálftvö, og þaðan af síður náttúrlega dagskrá fyrir föstudaginn þannig að ég veit ekkert hvað á að fara að ræða á morgun.

Nú er ég ungur þingmaður og vil leggja mitt af mörkum, mig langar t.d. til að ræða ítarlega um skattamál öðruvísi en bara í einhverjum upphrópunarstíl, og mig langar að vita hvenær á t.d. að ræða þau. Öll þessi óvissa, hvenær eru t.d. næturfundir, það er mjög ófjölskylduvænt að vita það ekki, en það er líka bara óþjóðfélagsvænt að vita ekki hvenær við ætlum að ræða öll stærstu málin sem hér verða augljóslega einhvern tímann á dagskrá. Spurningin er: Hvenær? (Forseti hringir.) Ég vil bara beina þessum atriðum inn í forsætisnefnd, (Forseti hringir.) að reyna að taka til í þessu og jafnvel ættum við að fá okkur aðra súpu í fjölskylduvænu nefndinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)