138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég ætlaði að spyrja hv. formann efnahags- og skattanefndar spurningar um mál sem virðist ekki mega nefna í þessum sal, skattamál. Það gengur hér allt af göflunum ef skattar eru nefndir. [Kliður i þingsal.] Þrátt fyrir að hér höfum við heyrt af líklega mestu skattahækkunum í sögu landsins í fjölmiðlum virðist ekki mega nefna þær í þessum sal án þess að allt fari hér á annan endann.

Ég spyr hv. formann efnahags- og skattanefndar hvort samráð hafi verið haft við hann um þessar hugmyndir eða hvort hann, eins og svo margir aðrir þingmenn, heyri einfaldlega af þessu í fréttum. Svo virðist sem vinnuplögg um þessi skattamál leki jafnóðum inn á Ríkisútvarpið þar sem þetta er kynnt alþýðunni.

Jafnframt spyr ég hvort hv. formaður efnahags- og skattanefndar hafi ekki áhyggjur af þessari stefnu. Ég held að það sé óhætt að segja að ekkert ríki í sögu heimsins hafi unnið sig út úr kreppu með slíkum skattahækkunum þó að ýmsar tilraunir hafi verið gerðar til þess, ég tala nú ekki um þegar leggjast saman slíkar skattahækkanir og alveg gríðarlega aukin skuldsetning ríkisins í erlendri mynt. Sú blanda hefur reyndar verið reynd nokkrum sinnum og ævinlega haft þær afleiðingar að skapa mikinn landflótta, eins og við horfum nú þegar fram á hér á Íslandi. Það eru einkum og sér í lagi þeir hópar í samfélaginu sem verða fyrir barðinu á þessum væntanlegu sköttum sem eru líklegastir til að fara úr landi svo það er varla á það bætandi og hlýtur að vera áhyggjuefni að mati hv. formanns efnahags- og skattanefndar.

Eins og ég nefndi áðan hafa viðlíka tilraunir verið gerðar áður, þessi eitraða blanda af gríðarlegri skuldsetningu ríkisins í erlendri mynt og ofursköttum. Þetta má líklega ekki nefna því að það flokkast væntanlega af Samfylkingunni undir lýðskrum en það er sannleikanum samkvæmt að síðast þegar þessi blanda var prófuð með svo afgerandi hætti þurfti að reisa múr til að halda fólki í landinu. [Hlátur í þingsal.] Við hljótum að hafa áhyggjur af í hvað stefnir á Íslandi. (Gripið fram í.)