138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Náttúruminjasafn Íslands.

6. mál
[14:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir spurninguna sem á svo sannarlega erindi enda, eins og hv. þingmaður fór yfir í fyrirspurn sinni, hafa málefni Náttúruminjasafnsins lengi verið til umræðu í þjóðfélaginu og kannski aldrei almennilega að því búið.

Markmiðið með stofnun Náttúruminjasafns sem tók í rauninni við af náttúrugripasafni Náttúrufræðistofnunar — eða það var hugsunin að byggja upp öflugt höfuðsafn á sviði náttúrufræða sem hefði m.a. það hlutverk að varpa ljósi á náttúru landsins og nýtingu auðlinda með sýningum og annarri fræðslustarfsemi til skólafjölmiðla og almennings. Í þessum lögum var mælt fyrir um skiptingu náttúrugripasafna í eigu ríkisins sem nú eru í vörslu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Í lögunum er kveðið á um að gripir sem hafa fyrst og fremst sýningargildi skuli vera undir forsjá Náttúruminjasafns. Þar sem safnið er hins vegar ekki enn komið í eigið húsnæði og hefur ekki yfir geymsluhúsnæði að ráða hefur ekki verið tekið til við að afmarka nánar hvaða gripir eiga að færast yfir til Náttúruminjasafns og hvernig sú skipting eigi að fara fram milli Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafns. Hluti þeirra gripa sem eru í vörslu Náttúrufræðistofnunar hefur hins vegar verið lánaður til sýninga innan lands — af því að hv. þingmaður spyr um gripina, hvort þeir séu aðgengilegir — hluti þeirra hefur verið lánaður til sýninga, m.a. til Náttúrustofu Kópavogs, Hvalasafnsins á Húsavík og á sýningu sem verið hefur í Þjóðmenningarhúsinu sem hér var nefnt áður.

Þessir gripir teljast líklega hafa sýningargildi en þessari aðgreiningu hefur ekki enn verið lokið. Helsta ástæða þess er sú að þetta nýja höfuðsafn hefur ekki enn fengið hentugt húsnæði fyrir starfsemi sína þar sem m.a. yrði hægt að sinna öflun og viðhaldi gripa, til að undirbúa sýningar og koma þeim upp. En þar til heppilegt húsnæði finnst munu gripir safnsins almennt ekki vera til sýnis og þannig lítt aðgengilegir til skoðunar og rannsókna á vegum safnsins sjálfs. Hins vegar er unnið að stefnumótun fyrir væntanlega starfsemi Náttúruminjasafnsins og greiningu á þörfum þess fyrir húsnæði bæði til sýninga, geymslu muna og almennrar þjónustu við gesti og fræðimenn. Þegar slík greining liggur fyrir verður hægt að afmarka betur þörf safnsins fyrir húsnæði undir starfsemi sína og líta til ýmissa muna á því sviði.

Þegar lögin voru sett á sínum tíma var hugsunin sú að reist yrði ný bygging sem væri sniðin að starfsemi Náttúruminjasafns og því hefur hugmyndafræðin snúist um að það þurfi nýja byggingu fremur en að eldri byggingu væri breytt til að hýsa nýtt Náttúruminjasafn. Frá því að lögin um safnið voru samþykkt, sem var vorið 2007, hefur líka verið velt upp ýmsum hugmyndum um mögulega staðsetningu bygginga fyrir safnið, svo og hvenær slík bygging kæmist á dagskrá. Settur var á laggirnar starfshópur skipaður fulltrúum ráðuneytis og Reykjavíkurborgar sem átti að skoða hugmyndir um hugsanlega staðsetningu. Sá hópur gerði síðan hlé á störfum sínum en var nýlega kallaður saman að nýju til að fara yfir þetta, enda mikill áhugi bæði hjá ríki og borg að reyna að finna framtíðarsýn, ef svo má að orði komast, fyrir Náttúruminjasafnið og hvar það eigi best heima.

Tveir staðir voru einkum nefndir í vinnu hópsins til að byrja með og það var í Vatnsmýrinni annars vegar og í Laugardal hins vegar. Það liggur fyrir að allar aðstæður til nýbygginga hafa breyst og ekki er mikið svigrúm til að ráðast í nýjar byggingar en hins vegar hafa ýmsar hugmyndir verið uppi um hvernig hægt sé að gera náttúruminjar aðgengilegri á meðan við sjáum ekki fram á nýja byggingu. Ég nefni sem dæmi hugmynd frá norðausturhorninu um að þar yrði sýning um náttúruminjar og ég tel að það megi alveg skoða það og hugsa það að Náttúruminjasafn þarf ekki endilega að vera bundið á einum stað. Eins og hv. þingmaður nefndi búa 70% þjóðarinnar hér og hér er höfuðsafnið en hins vegar má vel hugsa sér útibú eða eitthvert net — ég held það megi skoða það í stefnumótuninni.

Þjóðmenningarhúsið var sérstaklega nefnt og það er rétt að það var fært undir menntamálaráðuneytið 1. október sl. Þar liggur fyrir ákveðin áætlun um framtíðarsýningarhald og húsið er í fullri notkun. Þar er handritasýning sem heldur á sér ekki samastað því ekki er enn komið Hús íslenskra fræða sem á að hýsa handritasýningu. Húsið er einnig hugsað og á að gegna þýðingarmiklu hlutverki sem vettvangur sýninga í tilefni 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar þannig að það liggur fyrir og það þarf þá að endurskipuleggja það. En ég get sagt hv. þingmanni að við erum opin fyrir því að skoða ýmsa möguleika í því að skólanemendur og aðrir fái sem fyrst aðgang að náttúruminjum og góðum og fræðandi sýningum um þessi efni því að við finnum fyrir umtalsverðum skorti á þessu, ekki síst í skólakerfinu.