138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Náttúruminjasafn Íslands.

6. mál
[14:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu. Við erum með Náttúruminjasafnið sem var gert að höfuðsafni með lögum nr. 106/2001 og síðan er það staðfest með lögum þann 17. mars 2007. Lögin kveða á um stofnun höfuðsafns í náttúrufræðum sem taki við hlutverki gamla Náttúrugripasafnsins sem sofnaði árið 1992. Þetta er verðug umræða og þörf. Mig langar að blanda mér inn í þessa umræðu og spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því að þegar Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn þá er Náttúrufræðistofnun enn að fá fjárveitingar til sýningahalds og safnavinnu en hefur ekki í raun það hlutverk og er ekki safn í þess orðs merkingu. Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra svari því.

Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, það er brýnt að skoða hvort ekki er laust húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem gæti uppfyllt þessar kröfur. Það þarf ekki alltaf að horfa til nýbygginga.