138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Náttúruminjasafn Íslands.

6. mál
[14:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir mjög brýna spurningu til mennta- og menningarmálaráðherra. Ég vil taka undir svör hæstv. ráðherra þegar hún segir að safnið eigi að vera á höfuðborgarsvæðinu. Hvað varðar nýbyggingar hefur verið horft til Vatnsmýrinnar og Laugardals og er mér svo sem alveg sama hvor staðurinn verður valinn. En ef litið er til þess að íslenska ríkið hefur ekki efni á að byggja yfir safnið verðum við að skoða þann möguleika eins og í fangelsismálum að nýta það húsnæði sem er til staðar því að nóg er laust af nýju húsnæði.

Ég hafna því að Náttúruminjasafn Íslands verði eitthvert farandsafn þó svo að landsbyggðin eigi að fá að njóta þess að fá einhverja hluti úr því til sýnis í heimabyggð. En að setja hjól undir safnið og hafa það á flakki á milli landshluta gengur ekki því að þarna eru mjög dýrmætir og viðkvæmir hlutir innan borðs.