138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Náttúruminjasafn Íslands.

6. mál
[14:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég sé að hv. þingmenn eru áhugasamir um að þessum málum verði komið í skýran farveg og ég held að það sé gott mál. Eins og fram kom í máli mínu hefur sá hópur sem á að fara yfir húsnæðismál Náttúruminjasafnsins í samvinnu ráðuneytis og Reykjavíkurborgar verið endurvakinn og ég vona svo sannarlega að við fáum niðurstöður úr því bráðlega þannig að við höfum bæði sýn til lengri og skemmri tíma.

Ég tek undir með hv. málshefjanda og fyrirspyrjanda, Siv Friðleifsdóttur, að það skiptir máli að skólabörn á höfuðborgarsvæðinu og helst um land allt eigi aðgang að náttúru landsins. Hér var minnst á ferðamenn og stór meiri hluti þeirra sem sækja landið heim gerir það auðvitað vegna náttúrunnar þannig að það er réttmæt ábending.

Þegar kemur að Náttúrufræðistofnun Íslands, af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um fjárveitingar til hennar og til sýninga, þá eru þær ekki sundurliðaðar í fjárlagafrumvarpi og Náttúrufræðistofnun heyrir undir umhverfisráðuneyti þannig að ég á erfitt með að svara því. Hins vegar liggur fyrir að það þarf að skýra skilin á milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafnsins. Ástæða þess að það strandar á húsnæði er að það vantar ekki aðeins sýningarhúsnæði heldur líka tilfinnanlega geymsluhúsnæði fyrir Náttúruminjasafn til að geyma þá gripi sem eru í umsjá þess.

Ég tek einnig undir að ég sé fyrir mér höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu en eins og Þjóðminjasafnið er um land allt með sitt húsasafn og minjasöfn sér maður fyrir sér að Náttúruminjasafn gæti verið hluti af virku samstarfsneti með ýmsum náttúrusöfnum um landið. Þau eru mörg og skemmtileg þannig að þar gætum við kannski séð fyrir okkur, eins og hér er kallað eftir, ákveðna hugsun um safn allra landsmanna. Aðalmálið er að þetta safn muni virka sem slíkt, safn allra landsmanna.