138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

104. mál
[14:29]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðuna um Vetraríþróttamiðstöð Íslands og segja í þessu samhengi að á sínum tíma gagnrýndi ég mjög að þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, setti 270 millj. kr. í stofnkostnað Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands, sem var skilgreind sem þjóðarleikvangur á Akureyri, á sama tíma og Reykjavíkurborg var neitað um jafnháan styrk vegna þjóðarleikvangs í sundi í Laugardal. Hér var talað um að vinsælasta almenningsíþrótt landsins væru skíðaíþróttir. Ég held að sund eigi heima í þeim hópi og vil bara nefna það af því að menn hafa talað um að aðstoð minnki eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Í þessu tilfelli var því þveröfugt farið. Hún minnkaði einmitt eftir því sem nær dró höfuðborgarsvæðinu, svo að öllu sé til haga haldið.