138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

104. mál
[14:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ef við rýnum í fjárlagatillögurnar út frá höfuðborg og landsbyggð þá er staðreyndin sú að langflestar menningarstofnanir eru á höfuðborgarsvæðinu og nægir þar að nefna Þjóðleikhús, Sinfóníuhljómsveit Íslands o.s.frv. En hins vegar er niðurskurðurinn minnstur á menningarsamningunum til landsbyggðarinnar af hálfu menntamálaráðuneytisins og þar sést ákveðin forgangsröðun í þágu landsbyggðarinnar. Þeir samningar fá minnstan niðurskurð allra í menningarmálum af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hins vegar er mjög erfitt að fara út í samanburð því við erum líka að tala um, eins og hér hefur verið bent á, að hér búa flestir og hér er höfuðborg með tilteknar stofnanir, sem eru hýstar hér og fá eðlilega fjárveitingar, sem sinna líka landsbyggðinni upp að vissu marki. Það er því erfitt þegar við förum í það að reyna að leggja þetta á vogarskálar því að það er vafalaust alltaf hægt að finna ballansinn upp og ballansinn niður og hægt að kýta lengi um það.

Hvað varðar það verkefni sem hér er sérstaklega til umræðu þá ítreka ég þann vilja minn að reyna að taka upp þráðinn þegar mesta efnahagslægðin er gengin hjá til að hefja að nýju uppbyggingu á svæðinu. Ég get tekið undir það með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að þetta er vel heppnuð uppbygging, bæði í þágu íþrótta og í þágu ferðamennsku. Ég held að við getum öll verið sammála um að verkefnið er vel heppnað. Við munum skoða það, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi, að setja rekstrarframlög inn í einhvern tiltekinn samning, það verður skoðað. En að þessu leyti vil ég ítreka vilja okkar til að halda verkefninu áfram þegar tækifæri gefst.