138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrir þá fyrirspurn sem hér er lögð fram um þetta þarfa mál, sem er ekki svo gamalt, og ber að þakka að það hafi verið fullnustað af því að óumdeilt er eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að það hefur greitt götu ungmenna í íþróttastarfi vítt um land, en aðstaða ungmenna og íþróttafélaga til að búa þannig um hnútana að fólkið þeirra eigi möguleika á að sækja hingað á þetta svæði sérstaklega er mismunandi því að fjáröflun gengur misvel.

Ég vil benda hv. fyrirspyrjanda á að það er í rauninni sáraeinfalt að kippa þessu í liðinn inni í fjárlaganefnd og bendi á það t.d. þegar fyrir liggur að þetta er lækkað um rúmlega 3 milljónir, þá lækkar ekki ráðstöfunarfé menntamálaráðuneytisins, hæstv. ráðherra þar, nema um 2,4 milljónir. Það er af ýmsu að taka og það eru ýmis verkefni fyrir stjórnarmeirihlutann í fjárlaganefnd að laga í því fjárlagafrumvarpi (Forseti hringir.) og þeim drögum sem liggja fyrir í fjárlaganefnd.