138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er að mínu mati mjög mikilvægt mál og merkilegt. Það skiptir máli að varðveita það markmið sem við lögðum upp með á sínum tíma, þ.e. að jafna aðstöðumun, sérstaklega fyrst og fremst á meðal barna á landsbyggðinni, þannig að allir eigi jafnan aðgang eða sem greiðastan aðgang að íþróttaiðkun, þar á meðal forvarnastarfi o.s.frv. Það náðist mikil sátt um þetta, ekki bara í síðustu ríkisstjórn heldur meðal þingheims alls. Það skiptir máli að passa það verkefni.

Það má kannski segja að við sjáum hér anga af hinni miklu útþenslustefnu síðustu ríkisstjórnar eða þeirri nýfrjálshyggju sem hefur verið svo kvartað undan. Þetta er dæmi um aukningu ríkisútgjalda sem menn vilja núna verja og ég fagna því að vissu leyti.

Ég vil hins vegar lýsa því yfir samhliða þessari athugasemd minni að ég hef verulegar áhyggjur af því að þær skattahækkunarhugmyndir, sem við megum reyndar ekki ræða samkvæmt Samfylkingunni, muni leiða til þess að minna fé og fjármagn verði veitt af hálfu fyrirtækja, hvort sem er á landsbyggðinni eða í þéttbýlinu, til forvarna og íþróttastarfs og það verði minna svigrúm (Forseti hringir.) hjá fyrirtækjum til þess einmitt að halda áfram að reyna að jafna aðstöðumun milli landsbyggðar (Forseti hringir.) og þéttbýlis. Það er áhyggjuefni.