138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:49]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa fyrirspurn og langar til að taka þetta fyrst og fremst út frá börnum og ungmennum. Eitt af því sem við sameinumst um núna á erfiðum tímum er að við ætlum fyrst og fremst að standa vörð um börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra. Sveitarfélögin hafa gert það mjög myndarlega með því að halda frístundastyrkjum og fjárhagsaðstoð í raun og veru í óbreyttu formi til að allir geti stundað skipulagt tómstundastarf og gætt þess vel að svo verði hægt áfram. Mig langar til að minna á að hver flugferð til dæmis fyrir barn sem býr fyrir austan getur kostað upp í 30.000 og ef viðkomandi aðili stundar keppnisíþróttir er það afar sárt að einhver þurfi að sitja heima vegna þess að fjölskyldan hefur ekki efni á fargjaldinu. Þar finnst mér að ríkið eigi að koma inn þó að ég geri mér fulla grein fyrir því hver staðan er. En ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir fögur fyrirheit um það að hún ætli að standa vörð um þennan mikilvæga forvarnasjóð og legg til að hann verði nú fyrst og fremst nýttur til barna og ungmenna.