138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa ágætu fyrirspurn og tek undir orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um að hvetja fjárlaganefnd til dáða í þessum efnum. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt og kannski aldrei mikilvægara en nú þegar við sjáum — og ég tek kannski boltann frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varðandi skattahækkanirnar sem við megum ekki ræða — að það er ekki bara að tekjur í samfélaginu minnki heldur minnkar ráðstöfunarfé foreldra, ráðstöfunarfé foreldra á landsbyggðinni sem ætla að senda börnin sín í íþróttakeppni, og ég tel því að þessi sjóður sé afar mikilvægur. Ég hef heyrt það í mínu kjördæmi sem er stórt og víðfeðmt að menn hafi áhyggjur af þessu, bæði í Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum þar sem þessi kostnaður er náttúrlega gríðarlegur. Ég hvet því hæstv. ráðherra og hv. fjárlaganefnd til að huga vel að þessum málaflokki.