138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

jöfnunarsjóður íþróttamála.

105. mál
[14:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu eins og aðrir hér sem hafa talað. Ég vil einnig beina því til hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar að við tökum þetta upp í fjárlaganefnd. Málið er þar inni og ég lít svo á að við getum beitt okkur fyrir því í fjárlaganefnd að þetta verði hækkað eða að það verði a.m.k. skoðað.

Ég vil taka undir margt af því sem kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra þar sem hún kom inn á að framlagið væri lækkað um 5% sem er vissulega þungt fyrir þennan sjóð og fyrir þá sem sækja í hann, og það efast enginn um mikilvægi hans og það þekkja allir sem búa úti í hinum dreifðu byggðum. Ég vil vekja máls á því aftur sem hún sagði að þetta væri þó skorið minna niður en margt sambærilegt og vek einnig máls á því að þetta var skorið niður í síðustu fjárlögum, ekki skorið niður heldur komu ekki til þær hækkanir sem lagt var upp með þar upp á 30 milljónir. Ég lít svo á að við tökum málið upp í fjárlaganefnd og þar er það núna og þar á það heima.