138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[14:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Fyrir nokkrum missirum fór af stað athyglisvert verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum, á Patreksfirði, eftir að Patreksfjörður, Tálknafjörður og fleiri staðir höfðu tekið þátt í mjög merkilegu dreifmenntaverkefni og það hafði gefið góða raun. Áherslan var að sjálfsögðu sú að reyna að miðla menntun, gera aðgang að menntun sem bestan um allt land. Þess vegna var ákveðið að fara af stað í þetta tilraunaverkefni með framhaldsdeildina á Patreksfirði. Það var ekki síst vegna þess að við lögðum líka af stað með framhaldsskóla á Snæfellsnesi, á Grundarfirði, sem hefur sérhæft sig í dreifmenntun með annarri nálgun varðandi menntunina okkar og nýtt tæknina óspart til þess.

Ég veit því að samstarfið hefur að mestu leyti gengið vel og ég spyr hvort gerð hafi verið úttekt á þessu verkefni. Ef úttektin sýnir jákvæðar niðurstöður erum við að mínu mati búin að finna ákveðna leið til að auðvelda aðgengi barna og ungmenna á landsbyggðinni að framhaldsskólamenntun. Hægt er að taka ýmsa staði fyrir, eins og t.d. Hvammstanga, sem ég veit að hefur hugsað um það hvort þetta væri möguleiki. Þetta kostar að sjálfsögðu fjármagn og þess vegna verður að leita allra leiða í samvinnu við sveitarfélögin, hvernig og hvar raunhæft er að bjóða upp á aukið aðgengi að framhaldsskólamenntun. Þetta skiptir samfélögin á landsbyggðinni miklu máli. Við sjáum að samfélagið á Vesturlandinu, á Snæfellsnesinu, breyttist mikið. Ungmennin eru heima núna, krakkar á aldrinum 16–20 ára eru heima í staðinn fyrir að fara úr sinni heimabyggð eitthvað annað.

Ég held líka að ákveðnir fjármunir gætu sparast gegnum félagslega aðstoð, varðandi dreifbýlisstyrkina og fleira sem mundi sparast á móti ef hægt væri að gera þetta á markvissan hátt. Þetta verður að vera markvisst. Markmiðssetningin verður að vera skýr. Það þarf að vera ljóst að ekki er eingöngu verið að fara út í þetta út frá byggðarsjónarmiðum heldur út frá sjónarmiðum barnanna, að aðgengi barnanna okkar um allt land verði aukið og eflt varðandi framhaldsskólana.

Ég vil því gjarnan vita, af hálfu menntamálaráðherra, hver reynslan er af rekstri framhaldsdeildar Fjölbrautaskóla Snæfellinga á Patreksfirði og hversu hátt hlutfall barna á sunnanverðum Vestfjörðum hefur nýtt sér þetta tækifæri. Nýta þau þau tækifæri sem kerfið býður þeim upp á? Ég vona að svo sé. Ég vona að ráðherra geti greint okkur frá því. Ef niðurstaðan er góð vona ég að við sjáum sameiginlega hagsmuni í þá veru að bjóða upp á enn betra aðgengi varðandi menntun á öllum stigum í skólakerfinu.