138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil koma aðeins inn á það hvað þetta breytir mikið samfélögunum. Það sem gerðist á Snæfellsnesi þegar Fjölbrautaskóli Snæfellinga var stofnaður var að það gjörbreytti samfélögunum. Og ekki bara það, margar fjölskyldur hafa ekki efni á að senda börnin sín til náms og því er gríðarlega mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut að tryggja nám í heimabyggð. Ég er sannfærður um að þegar upp er staðið mun þetta ekkert verða neitt dýrara. Ég er alveg sannfærður um það.

Hæstv. menntamálaráðherra kemur inn á það að þetta sé tilraunaverkefni sem sé að klárast á næsta ári. Því vil ég spyrja hvort hún telji ekki mikilvægt að við gerum um þetta sérstakan samning þannig að verkefnið verði tryggt. Ég vil líka beina því til hennar með vinsamlegum hætti, þar sem bæði aðilar frá Hvammstanga og á Hólmavík eru að hugsa mjög svipað, (Forseti hringir.) að taka jákvætt í það.