138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Sú reynsla sem við höfum fengið af framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði, sá góði árangur sem þar hefur náðst, sýnir svo ekki verður um villst að við erum á réttri leið með það markmiði að veita börnum, 16–17 ára, réttindi til þess að stunda nám í sinni heimabyggð. Það er algjörlega ótækt að fólk í sumum byggðarlögum þurfi að senda börn sín að heiman, langt að heiman út í hinn erfiða heim, börn sem mörg hver eru ekki reiðubúin til að takast á við það umhverfi fjarri sínum heimahögum. Oftar en ekki hefur það leitt til þess að viðkomandi fjölskyldur flytjast einfaldlega burt, þ.e. á eftir viðkomandi einstaklingi.

Ég hvet hæstv. ráðherra því til að halda áfram með þessi verkefni. Eins og hæstv. ráðherra nefndi er framhaldsnám nú hafið við utanverðan Eyjafjörð, í Fjallabyggð. Mér skilst að ráða eigi skólastjóra á næstunni við þá menntastofnun sem þar hefur verið stofnuð. Ég vil lýsa yfir stuðningi við það starf sem unnið er á Langanesi og spyrja hæstv. ráðherra hvort Vopnfirðingar hafi (Forseti hringir.) komið á hennar fund og spurt um möguleika á því að hefja framhaldsnám í Vopnafirði, sem er mikilvægt mál.