138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst um margt áhugavert að heyra þau sjónarmið sem hér eru uppi. Þau ríma um mjög margt við sjónarmið sem við höfum greint hjá foreldrum nemenda í þessum framhaldsdeildum sem núna eru starfandi á Patreksfirði, Fjallabyggð og Þórshöfn og einnig hjá nemendunum. Þegar á hólminn er komið, jafnvel þótt fólk sé ávallt tortryggið þegar breytingar verða — það vill nú svo til þegar nýjar deildir eru stofnaðar að sumir eru tortryggnir og telja kannski að þetta sé ekki nægilega gott — þá virðist reynslan vera góð. Fólk er ánægt, bæði nemendur og foreldrar, með að geta áfram búið saman. Það skapar einhverja ró yfir byggðarlaginu, kom fram í álitsgerð frá skólameistara, að hafa unglingana heima í skóla, á sínum stað. Þetta er mjög ánægjulegt.

Ég tek undir að það þarf að huga að list- og verkgreinum eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir nefndi. Það þarf að taka það sérstaklega inn því það er um margt auðveldara að kenna bókleg fög í fjarnámi. Kannski er það auðveldara aðallega af því við höfum meiri reynslu í því en ég er sannfærð um að við getum byggt upp reynslu og þekkingu á hinu líka. Við þurfum bara að huga að því að því sé haldið til haga í stefnumótun.

Ég þykist líka vita að mörg sveitarfélög velta þessum hugmyndum fyrir sér. Hér hafa nokkur verið nefnd og ég þekki fleiri sveitarfélög þar sem þessi umræða er í gangi því fólk telur þetta vera hluta af ákveðnum lífsgæðum, að búa þar sem börn eiga aðgang að framhaldsskólamenntun. Mér fyndist áhugavert að efna hreinlega til víðtækrar umræðu um þessa þróun — því það sem við sjáum nú er marktæk þróun, við sjáum að fyrstu viðbrögð eru jákvæð — um hvort þetta sé sú átt sem við viljum stefna með okkar framhaldsskólamenntun, að færa hana í auknum mæli til heimabyggðar. Ég hef sannfæringu fyrir því að það sé rétta leiðin en ég held að sé mjög mikilvægt að við tökum núna og nýtum þá reynslu sem við fáum frá þeim stöðum þar sem þetta er farið af stað.