138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framlög til menningarmála.

134. mál
[15:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin varðandi framlög til menningarmála. Það er ljóst að við höfum staðið frammi fyrir mikilli raunaukningu til menningarmála. Ég held að menn geti fagnað því þó að það séu ákveðnir aðilar sem líka muni ekkert endilega fagna því neitt sérstaklega en þetta verður á endanum alltaf spurning um forgangsröðum. Við höfum greinilega á síðustu árum forgangsraðað í þágu velferðarinnar en ekki síður menningarmála.

Það er stundum dálítið hættulegt að standa hérna uppi og koma aftur og aftur upp í pontu og vera óskaplega ánægður með það sem kemur frá hæstv. menntamálaráðherra og vera bara í rauninni alltaf sammála, en í þessum málum er það mjög ánægjulegt og ég vil þakka fyrir þessi viðbrögð og þann skilning sem menntamálaráðherra hefur sýnt á þeim málefnum sem hafa verið lögð fyrir hana í dag. Hins vegar er fjárlagagerðin stóra málið sem við stöndum frammi fyrir núna og hvernig við munum þurfa að forgangsraða innan fjárlagagerðarinnar og þá munu þær upplýsingar sem liggja fyrir núna skipta máli, hvert við ætlum að beina fjármununum, í hvaða farveg við ætlum að gera það.

Ég vil undirstrika það aftur og draga inn í þessa umræðu þá stórhættulegu skattaumræðu sem hefur verið sett af stað og sumir vilja banna. Ég er hrædd um og það mun væntanlega gerast og ég spái því að eins og fyrirtækin munu hafa minna umleikis og líka heimilin fyrir börnin okkar í íþróttum, muni það sama hugsanlega gilda um menningarmálin. Ég velti því fyrir mér hvaða möguleika sér menntamálaráðherra í því hvernig við eigum að bregðast við innan menningargeirans varðandi kvikmyndirnar, varðandi bókmenntasjóð, varðandi bara allan þann heim sem menningarmálin snúa að, hvernig munum við standa frammi fyrir því að það verður ekki eingöngu ríkissjóður sem muni skerða framlög sín til menningarmála, heldur ekki síður fyrirtækin? Hvernig á að taka á því og á ekki að gera það í samvinnu við til að mynda listamenn?