138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framlög til menningarmála.

134. mál
[15:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og öðrum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það liggur auðvitað fyrir og kannski fann íþróttahreyfingin fyrir því fyrst, en líka menningarlífið auðvitað að strax við hrunið drógu fyrirtæki sig út að stóru leyti sem stuðningsaðilar. Það er auðvitað verulegt áhyggjuefni því að þau hafa komið inn með ýmsa fjármuni á undanförnum árum. Það er áhyggjuefni að því leyti til að við þurfum að velta fyrir okkur hvernig þeim verður bætt þetta upp, listamönnum, íþróttafélögum og öðrum. Ég nefni sérstaklega íþróttahreyfinguna, af því að þar hefur þetta í raun og veru verið þriðjungur frá fyrirtækjum, þriðjungur frá opinberum aðilum og svo þriðjungur frá heimilunum í landinu sem líka eru minna aflögufær. Vissulega er það umræða sem þarf að taka.

Hvað varðar menningarsamningana sem tveir hv. þingmenn nefndu hér, menningarráðin og menningarsamningana, þá er frá hálfu menntamálaráðherra og ráðuneytis mikill vilji til að viðhalda þeim. Til stendur að endurnýja þá samninga. Það þarf auðvitað að skoða hlutfallslega skiptingu milli svæða og hvort ástæða er til að gera einhverja breytingu á henni en við leggjum til 5% niðurskurð þar, sem er með því minnsta sem við leggjum til af því að við teljum þetta mikilvægt. Hins vegar hafa aðrir aðilar komið að þessu, sveitarfélög, iðnaðarráðuneyti, og það þarf auðvitað að skoða hver heildarniðurstaðan verður þegar þessi framlög eru öll komin saman.

Það hefur verið ánægja með þessar úthlutanir að því leytinu til að þær eru nær fólkinu á svæðinu, menningarráðin eru skipuð fulltrúum svæðanna sem hafa meiri tengsl og mjög margt áhugavert, mörg áhugaverð verkefni hafa komið út úr þessu.

Svo verð ég bara að segja að lokum um tónlistarhúsið. Ég er alveg sannfærð um að það á ekki eftir að drepa menningarlífið. Ég er viss um að það á eftir að verða sproti eins og annað og ég hugsa að eftir einhver ár eigum við eftir, mörg hver alla vega, að verða sáttari við það en við erum í dag. Þó að vissulega sé þetta stór framkvæmd held ég líka að hún eigi eftir að verða íslensku tónlistarlífi og menningarlífi til mikils sóma. Ég hugsa að við eigum eftir að verða ánægð þegar við sjáum þetta hús risið, og ég er alveg handviss um að meira að segja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson verður það jafnvel líka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)