138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:46]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir hæstv. utanríkisráðherra vera aðeins hógværari í svörum sínum hér en hann var í fréttum Stöðvar 2 fyrr í vikunni. Þar sagðist hann hafa upplýsingar um að það væru alls konar sjóðir og styrkir sem mundu væntanlega, eins og hann orðaði það, „dekka þetta að töluverðu leyti“ og átti þá við kostnaðinn við aðildarumsóknina að frátöldum þýðingarkostnaðinum, eða þannig skildi ég ummæli hans.

Hann vitnar í svari sínu í ummæli og samtöl við undirmann Olli Rhens stækkunarstjóra. Það vill svo til að ég hitti þann sama mann, hann er svona ígildi ráðuneytisstjóra, á ferð í Brussel í síðustu viku. Ekki gat ég skilið á hans orðum að einhverjir digrir sjóðir væru til umráða, nema ef við ætluðum að teljast með fátækari ríkjum Evrópu sem ég hélt satt að segja að við værum ekki. En má ég bara gefa hæstv. ráðherra eitt ráð: Í guðanna bænum ekki fara að taka lán hjá Evrópusambandinu til að sækja um aðild að Evrópusambandinu — í guðanna bænum! Við erum með nóg af lánum (Forseti hringir.) sem við þurfum að borga af í nánustu framtíð. Við þurfum ekki fleiri lán, virðulegur forseti.