138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það eru mörg lönd sem hafa lagt í ferli til að sækja um aðild að Evrópusambandinu með betlirök eins og þeir sem talað hafa fyrir þessu hafa farið með. Þau rök hafa gengið út á það að ef við förum inn verði svo mikið af sjóðum og öðru slíku sem hægt verði að sækja í. Það er ekki mikill bragur á því og hefur aldrei verið. Þær þjóðir sem hafa sótt um aðild hafa í það minnsta lagt málin upp með einhverjum öðrum hætti, t.d. vísað til þeirra hugmynda og hugsjóna sem Evrópusambandið á að standa fyrir.

Ég hlýt, virðulegi forseti, að gera athugasemdir við þessi svör. Hér kemur hv. þingmaður og leggur þessar spurningar fram og hæstv. ráðherra hefur nægan tíma til að undirbúa sig og á að koma með skýr svör. Það er ekki boðlegt að hann segist hafa verið að spjalla við einhverja menn og meti það svo að hlutirnir séu hugsanlega með einum eða örðum hætti. Það er ekki boðlegt. Það verða að koma svör við spurningunum.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé orðið verulegt umhugsunarefni. Ég spurði ráðherra um daginn og hann sagðist (Forseti hringir.) ekki geta svarað af því hann ætlaði að setja málið í nefnd. Hér kemur hæstv. ráðherra og er ekki með á hreinu spurningar (Forseti hringir.) sem hann er fyrir lifandis löngu búinn að fá.