138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þau svör sem hann veitti og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Það er greinilega mjög brýnt mál hér á ferðinni.

Hæstv. utanríkisráðherra upplýsti vissulega að sjóður ESB væri hálfgerður betlisjóður, fátæktarríkjasjóður, sem Ísland gæti sótt í, en við þyrftum að leggja eitthvað á móti. Hann ítrekaði að möguleiki væri á því að sækja í þennan sjóð eftir áramótin. Þarna er kannski komin ein skýringin á þeirri hraðferð sem utanríkisráðherra er á með þjóðina inn í Evrópusambandið, kannski ein skýring, það er verið að bíða eftir því.

Öllu athyglisverðara fannst mér nú þegar hann fór að lýsa þeim lánum sem Íslandi standa til boða sem umsóknarríki en skilyrði þeirra eru þau að Evrópusambandið tekur lán á markaði og veitir áfram til ríkja sem eru umsóknarríki á sömu vöxtum. Þarna er líka komin skýring á þessari hraðferð eins og ég benti á í framsöguræðu minni. Við skulum ekki gleyma því að Moody´s gaf Íslandi lánshæfiseinkunnina BB3 í morgun, sem er næsti flokkur við ruslflokk, sem segir það að erlendir lánamarkaðir eru lokaðir fyrir okkur Íslendinga. Þarna er komin önnur skýring á hraðferð ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Við skulum alveg átta okkur á því í hve slæmri stöðu Ísland er en Evrópusambandið reddar okkur ekki og ef þetta á að vera útgönguleið býð ég ekki í að þessi ríkisstjórn lifi lengi.

Mig langar að beina spurningu til hæstv. utanríkisráðherra: Hvað gerist ef íslenska þjóðin segir nei við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, gjaldfalla þá þau lán sem ríkisstjórnin ætlar sér að taka og þarf að endurgreiða þá styrki sem verður búið að troða upp á Íslendinga? Nú, frú forseti, vil ég fá skýrt svar frá hæstv. utanríkisráðherra.