138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

útganga fulltrúa Íslands á allsherjarþingi Sþ.

131. mál
[18:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ein af grunnstoðunum í íslenskri utanríkispólitík er þátttaka okkar í NATO. Það varnarsamstarf við vestrænar þjóðir hefur lengi verið hornsteinn og helsti hluti utanríkisstefnu okkar. Í gegnum tíðina hafa ýmis pólitísk öfl tekist á um það og ásarnir verið mjög skýrir. Það vita allir afstöðu okkar sjálfstæðismanna gagnvart samstarfinu við NATO, meðan afstaða annarra — og flestir þeirra eru nú reyndar komnir í ríkisstjórn — hefur verið með allt öðrum hætti. Þetta er saga sem við þekkjum. Við þekkjum líka að þau stjórnmálaöfl sem eru nú í ríkisstjórn hafa talað mjög digurbarkalega og verið með sterkar yfirlýsingar í hinum ýmsu málum í gegnum tíðina. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er ungur að árum, en ég veit t.d. að hann náði inn í Víetnam-stríðið og hafði ákveðnar skoðanir á því. Við höfum heyrt ákveðnar skoðanir á NATO, samstarfinu við það, af þeirra hálfu. Við höfum líka heyrt ákveðnar skoðanir þessara einstaklinga á Íraks-stríðinu og fleira.

Ég held að helsta ógn vestrænna ríkja í dag, hvort sem er í utanríkismálum — í rauninni á öllum sviðum, er ógnin við frelsið. Þá er ég að tala um tjáningarfrelsi, persónufrelsi, ógnir sem stafa til að mynda af hryðjuverkum. Ég vil vitna í merka ræðu sem Angela Merkel hélt þegar hún ávarpaði öldungadeild Bandaríkjanna og fulltrúadeildina. Þar segir hún m.a. að ekki ætti að líða — það er núll-tollerans, eða núll-umburðarlyndi, gagnvart þeim þjóðum sem vilja traðka á ófrávíkjanlegum mannréttindum. Hún dregur athyglina að Ahmadinajad Íransforseta í kjölfarið. Allir vita að hann hefur ítrekað lýst yfir mikilli andúð á Ísrael, hann hefur afneitað helförinni og lýst yfir stuðningi við eyðingu Ísraelsríkis. Það vakti athygli mína að á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna gengu margar vestrænar þjóðir út, sumar voru meira að segja búnar að lýsa því yfir fyrir fram, til að mynda Kanada, aðrar þjóðir gengu út, Þýskaland — Bandaríkin, kannski eðli málsins samkvæmt, sátu heldur ekki undir ræðu Ahmadinajads. Þau skírskotuðu öll til þess að þessi maður væri að vissu leyti ákveðin ógnun við frelsi Vesturlanda, en fyrst og fremst væru þau að mótmæla því hvaða framkomu og skoðun hann hefur á Ísraelsríki. Angela Merkel hefur sagt „að árás á Ísrael sé árás á hinn frjálsa heim og hin frjálsu vestrænu gildi“.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: (Forseti hringir.) Hvarflaði einhvern tímann að honum að gefa þau fyrirmæli til sendifulltrúa sinna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að ganga út undir ræðu Ahmadinajads eins og margar aðrar vestrænar (Forseti hringir.) þjóðir gerðu og fordæma skoðanir hans gagnvart Ísraelum?