138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

útganga fulltrúa Íslands á allsherjarþingi Sþ.

131. mál
[18:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Við verðum að átta okkur á því að við erum að ræða hér um leiðtoga sem hefur ekki eingöngu afneitað helförinni, fordæmt gildi vestrænna ríkja heldur líka leiðtoga sem hefur ákveðið að styðja ekki afnám dauðadóms yfir til að mynda Salman Rushdie sem notaði ritfrelsið, prentfrelsið, tjáningarfrelsið, heldur hefur gefið út allsherjardauðadóm á hendur honum, ásamt klerkaveldinu í Íran.

Ég fagna því að menn hafi alla vega velt því fyrir sér að ganga út þegar orðræða leiðtoga slíkra ríkja á sér stað á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, ég fagna því. Ég verð hins vegar að segja: Það er rétt, Ísland hefur aldrei gert það. Við verðum að velja þetta vel, við verðum að vanda okkur vel þegar kemur að svona. Samskipti ríkja eru viðkvæm og þarf oft á tíðum — það var nú reyndar fótboltaleikur í gær við Íran þar sem við töpuðum 1:0 og oft á tíðum eru íþróttir annar farvegur, betri leið, til að efla samskipti á milli þjóða. Það verður samt að segjast eins og er að það er holur hljómur í því að heyra það hjá hæstv. utanríkisráðherra að hugsanlega væri hægt að gera það ef það snerti hagsmuni Íslands.

Þá verð ég að segja að huganum verður hvarflað til Icesave-málsins. Ég verð þá að líta svo á að við munum aldrei beita því úrræði að ganga út þegar menn setja fram orð sín sem snerta réttindi manna, og þá sérstaklega á Vesturlöndum — ég efast um að Íslendingar muni einhvern tímann mótmæla eða fara út fyrst við vorum svona aumleg og linkuleg gagnvart Hollendingum og Bretum í okkar réttindamáli sem snertir Icesave. Í stærstu milliríkjadeilu síðari ára höfum við ekki staðið í lappirnar. Ætla menn þá virkilega að telja okkur trú um það hér á þinginu að menn muni gera það þegar slík orð verða hugsanlega sett fram á allsherjarþinginu?

Ég hefði viljað sjá hæstv. utanríkisráðherra taka myndarlega (Forseti hringir.) á þessu máli og mótmæla því hvernig Íransforseti hefur verið að gera atlögu að Ísraelum (Forseti hringir.) og sögu þeirra í gegnum tíðina.