138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sendiherra Bandaríkjanna.

160. mál
[18:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í mál sem er í rauninni angi af stærra máli og veldur mér nokkrum áhyggjum en það eru samskipti Íslands við Bandaríkin. Það er skoðun mín að við höfum ekki sinnt þeim sem skyldi á undanförnum árum, í það minnsta áratug, kannski áratugum. Því miður hefur áherslan öll verið á vini okkar í Evrópu. Þótt það sé mjög nauðsynlegt höfum við gleymt því að þessi gamla vinaþjóð okkar, sem var nú fyrst til þess að lýsa yfir stuðningi við sjálfstæði okkar, hefur oftar en ekki reynst okkur vel og í ofanálag er hún eina stórveldið í heiminum, í það minnsta langöflugasta ríkið.

Við höfum flest tekið eftir því að hér hefur ekki verið sendiherra á landinu mjög lengi. Þrátt fyrir að við vitum að það getur tekið langan tíma að hafa sendiherraskipti vildi ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það geti eitthvað tengst þeirri óheppilegu uppákomu sem var mjög í umræðunni hér á vormánuðum þegar Carol von Voorst sendiherra, sem er nú mikill Íslandsvinur og sinnti sínu starfi með sóma, var tilkynnt bréflega að hún ætti að fá fálkaorðuna. Hún var búin að fá leyfi bandarískra yfirvalda til að taka á móti henni. Ástæðan fyrir því að hún þurfti að fá leyfi bandarískra yfirvalda er að almenna reglan í Bandaríkjunum er sú að borgarar fá ekki orður, einungis hermenn, þannig að það þurfti að veita sérstakt leyfi til þess að hún gæti tekið við þessari orðu. Síðan var orðuveitingin afturkölluð á hlaðinu á Bessastöðum, eins og menn þekkja. Eiður Guðnason, sendiherra og fyrrverandi ráðherra, talaði um að hér væri um ótrúlegan dónaskap að ræða. Það væri ágætt að heyra hver afskipti hæstv. utanríkisráðherra voru af þessu máli. Ég hef ekki séð það staðfest að viðkomandi einstaklingur hafi fengið formlega afsökunarbeiðni. Hvað sem því líður vona ég nú að þetta hafi engin áhrif og margir viðmælendur sem tjáðu sig um þetta á sínum tíma voru nú bjartsýnir að svo væri. Því er ekki að neita að þetta er afskaplega pínlegt mál í besta falli, alveg sama hver á í hlut.

Við vitum að það getur tekið langan tíma að skipta um sendiherra, það eru ekki bara við sem erum ekki með sendiherra Bandaríkjanna, það er líka Aserbaídsjan, Hvíta-Rússland, Portúgal og Singapúr og fleiri lönd.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort nýr sendiherra Bandaríkjanna hefur tekið til starfa hér á landi.

Ef ekki, telur ráðherrann að geti verið vegna uppákoma í tengslum við veitingu fálkaorðu?

Að lokum, hvaða þýðingu hefur það ef Bandaríkin (Forseti hringir.) hafa ekki starfandi sendiherra hér?