138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sendiherra Bandaríkjanna.

160. mál
[18:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að samskipti okkar og Bandaríkjanna hafa verið með hvað mestum blóma núna síðasta árið, a.m.k. síðan 2006 þegar ákveðin uppstytta varð hér í samskiptum okkar og Bandaríkjanna vegna þess dæmalausa klúðurs í samskiptum Bandaríkjanna og Íslands sem Sjálfstæðisflokkurinn bar fyrst og fremst ábyrgð á. Það er ekki síst vegna þess að forseti Íslands er vel kynntur í Bandaríkjunum og hefur mikil tengsl. Ég get sagt hv. þingmanni að þau tengsl hafa nýst Íslandi vel. Að því er orðuveitingar forseta Íslands varðar get ég líka upplýst hv. þingmann um að þau eru með engum hætti á borði utanríkisráðherra.

Hv. þingmaður spyr um með hvaða hætti utanríkisráðherra hafi haft afskipti af þessari orðuveitingu. Alls engin. (Gripið fram í.) Það er ekki mitt að dæma um það hverjum forseti Íslands (Gripið fram í.) á að veita orður og hverjum ekki. Hv. þingmaður kemur síðan með spurningu sem hann er búinn að svara. Hann segir að allir viti að nýr sendiherra Bandaríkjanna er ekki tekinn til starfa. Hvers vegna er hann þá að eyða tíma þingsins í að spyrja um það?

Hv. þingmaður segir síðan að flestir hafi tekið eftir því að sendiherraskiptin hafi tekið langan tíma. Er það svo? Mér er a.m.k. tjáð að þegar skipti verða á ríkisstjórn í Bandaríkjunum leggi allir sendiherrar, hvort sem þeir eru pólitískt skipaðir eða embættismenn, fram lausnarbeiðni sína. Mér er sagt að það taki að meðaltali sjö mánuði að koma nýjum sendiherra í embætti.

Það vill svo til að fyrir utan þau lönd sem hv. þingmaður taldi hér upp að væru sendiherralaus, eru í dag 13 ríki sem ekki hafa fengið skipaðan sendiherra enn þá. Ég held að hv. þingmaður, sem ég þekki úr ríkisstjórn að undirbýr sig alltaf vel, a.m.k. að lesa heima. Ég skildi ekki tilefni þessarar fyrirspurnar fyrr en ég las Morgunblaðið í dag. Þá sá ég að hv. þingmaður telur að það sé eitthvert sérstakt hlutverk sitt að vera sendisveinn ritstjóra Morgunblaðsins og ber svona mál inn í þingið. (Gripið fram í.) Auðvitað hefur hv. þingmaður rétt til þess að spyrja um hvað eina. En það verður að segja alveg eins og er að ef þetta er eitthvert vantraust á þann mann sem núna er settur yfirmaður sendiráðsins hér í Reykjavík, get ég sagt hv. þingmanni að sá maður stendur sig afburðavel, alveg eins og fyrrverandi sendiherra, Carol von Voorst.

Ég held að hafi verið í apríl eða maí sem sá ágæti sendiherra, sem átti mikinn þátt í því að græða þau sár sem hér urðu tímabundið eftir árið 2006 vegna Sjálfstæðisflokksins í þessum samskiptum, var okkur kynntur nýr sendiherra, Robert S. Conan. Mánuði síðar var okkur tilkynnt að af persónulegum ástæðum hefði sá maður, sem ekki var pólitískur heldur embættismaður í kerfinu að uppruna, hefði fallið frá því. Það er ekkert flóknara en það og þá gerist það sem gerist jafnan að það er settur sérstakur sendimaður yfir sendiráðið. Þetta gera Íslendingar. Það er nú ekki flóknara en svo að t.d. núna í einu af sendiráðum okkar, þ.e. í Nýju-Delí, hefur verið slíkur yfirmaður. Það var sendiherralaust í 11 mánuði. Það hefur ekki hlaupið nein snurða á samskipti Íslands og Indlands sökum þess. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni nýlegt dæmi um það, af því að hann hefur áhuga á utanríkismálum, að það leið ár þangað til Bandaríkin skipuðu sendiherra í einu af sínum nánustu vinátturíkjum og samstarfsríkjum, þ.e. Ástralíu.

Það er rétt að rifja það líka upp fyrir hv. þingmanni að þegar ritstjóri Morgunblaðsins var forsætisráðherra, dyggilega studdur af bæði mér og hv. þingmanni, sem þá var að vísu enn í borgarstjórn Reykjavíkur, var sendiherralaust hér á Íslandi í 14 mánuði. Mér er ekki kunnugt um að það hafi haft einhver neikvæð afskipti eða áhrif á samskipti þjóðanna. Mér er heldur ekki kunnugt um að það hafi verið eitthvað sem hv. þingmaður kallar uppákomu varðandi orðuveitingu.

Ég held að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson eigi ekki að smækka sig með því að gerast sendisveinn manna í þessu einelti gagnvart forseta Íslands, sem mér virðist að hann sé að láta plata sig í.