138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

umönnunarbætur.

106. mál
[18:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hverjum þingmanni hollt að staldra vel við fjárlagafrumvarpið og kanna það í þaula. Eitt af því sem menn taka eftir við lestur þess er að hagræðingarkrafa til foreldra fatlaðra barna er langt umfram það sem gengur og gerist í niðurskurði til ýmissa málaflokka. Umönnunarbætur eru skornar niður um fjórðung, 24,6% að því er mér sýnist. Mér þykir þetta mjög miður. Þetta lýtur að samfélagsskyldu, þeirri skyldu að fötluð börn geti helst og sem mest verið heima hjá sér og búið heima í tryggu athvarfi foreldra sinna. Þetta er mannréttindamál.

Við skulum hafa söguna í huga. Svokallaðar umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra barna má rekja allt til greiðslu barnaörorku samkvæmt almannatryggingalögum frá 1971 og síðan til greiðslu bóta til foreldra fatlaðra barna samkvæmt 15. gr. laga um aðstoð við þroskahefta frá 1979 og 10. gr. laga um málefni fatlaðra frá 1984. Hér nefni ég nokkur ártöl frá 1971 til 1984 og blessunarlega hefur margt áunnist í málefnum fatlaðra barna á þessum tíma, í þá veru að fötluð börn eru meira heima hjá sér en á stofnunum. Ég vil geta þess að árið 1973 voru 30% fatlaðra barna á stofnunum en einvörðungu 8% árið 1985, örfáum árum síðar, sakir þessara greiðslna sem hér eru til umræðu.

Upphæð umönnunargreiðslna hefur alla tíð verið tengd alvarleika fötlunar barnsins og þessum greiðslum hefur verið breytt á liðnum árum í takt við tíðarandann. Fyrst og fremst er hér um kerfi að ræða sem lýtur að því að minnka þjónustuálag ríkisins. Ekki er um útlagðan kostnað foreldra að ræða heldur fyrst og fremst umönnun, sem gerir að verkum að ríkið þarf ekki að greiða meira til þessa málaflokks. Hér er um þjóðhagslega hagkvæmt kerfi (Forseti hringir.) að ræða að mínu viti.

Þess vegna spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra: Hvaða rök mæla með því að skera niður umönnunarbætur hjá foreldrum fatlaðra barna vel umfram (Forseti hringir.) hagræðingarkröfuna í samfélaginu og mun hann endurskoða hug sinn til þessa máls?