138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

umönnunarbætur.

106. mál
[18:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg spurning, grundvallarspurning eins og margar aðrar í velferðarkerfinu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann átti við þegar hann sagði að foreldrar fatlaðra barna hefðu fengið greiddar umönnunarbætur án þess að hafa lagt fram reikninga. Ég átta mig ekki alveg á hvað felst í því. Ég hélt að umönnunarbætur væru greiddar með öðrum hætti.

Í öðru lagi. Þessi málaflokkur og sá sem hæstv. ráðherra heldur utan um — margoft hefur verið rætt um að það þurfi að fara í heildarendurskoðun á þessu kerfi öllu. Lagt var upp með þá heildarendurskoðun í ráðuneytinu árið 2007 í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur. Hvernig miðar þessari endurskoðun á kerfinu almennt? Hefur ráðherra í hyggju að ljúka því og leggja þá fram einfaldara, skilvirkara og auðveldara kerfi fyrir þá aðila sem þurfa að sækja þar um?