138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.

109. mál
[19:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér öðru sinni upp í pontu til að ræða málefni fatlaðra. Ég vil taka það fram að hæstv. félagsmálaráðherra er klárlega ekki öfundsverður af þeim verkefnum sem að honum snúa á þessum niðurskurðartímum. Ég vil hins vegar taka fram að fjárlögin sem eru til meðferðar í þinginu þessa dagana eru ekki fullkomin eða öllu heldur er fjárlagafrumvarpið ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk. Enn er hægt að bæta það og þar hef ég málefni þeirra sem minnst mega sín helst í huga. Margt hefur farið á hausinn í íslensku samfélagi á síðustu vikum, mánuðum og árum og menn nefna þar ekki síst viðskiptabankana og jafnvel Seðlabankann, en því miður er það svo að Framkvæmdasjóður fatlaðra er á hausnum. Framlög til hans á síðustu árum hafa ekki verið sem skyldi og það ber að harma, einfaldlega vegna þess að á síðustu árum hefur ekki verið farið að lögum um málefni fatlaðra, enda þótt þar sé um réttindalög að ræða. Þar er ekki um einhverja heimild ráðherra að ræða, heldur hrein og klár réttindalög. Nú bíða um 150 fötluð ungmenni eftir búsetuþjónustu og þeim fjölgar á hverju ári, en engu að síður er Framkvæmdasjóður fatlaðra svo að segja tómur og fyrir vikið á þessi listi eftir að lengjast á komandi árum ef ekkert verður að gert. Mikilvægt er að koma til móts við eðlilega fjölgun í þessum hópi, þótt ekki væri annað. Árlega munu 45–50 ungmenni bætast í þennan hóp, að því er sérfræðingar hjá Landssamtökunum Þroskahjálp tjáðu mér nýverið, þannig að þessi vandi mun vaxa á næstu árum og jafnframt verða mannréttindi brotin á þessum hópi, vegna þess að við förum ekki að lögum um málefni fatlaðra.

Ég spyr félagsmálaráðherra, sem vissulega er í erfiðri stöðu nú um stundir, hvernig hann ætlar að tryggja að Framkvæmdasjóður fatlaðra geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum á komandi árum. Ég endurtek: (Forseti hringir.) Lögbundnum verkefnum sínum.