138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.

109. mál
[19:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þessi ummæli, ekki síst þau er varða Íbúðalánasjóð, enda tel ég mjög mikilsvert að fatlaðir sitji við sama borð í öllu og þeir sem eiga að teljast heilbrigðir í þessu samfélagi. Þess vegna finnst mér fullkomlega eðlilegt að horft sé mjög nákvæmlega á þá leið að færa verkefni Framkvæmdasjóðs fatlaðra að einhverju leyti inn í Íbúðalánasjóð og að fatlaðir standi þar með jafnfætis öðru fólki í landinu.

Ég tek jafnframt áskorun hæstv. félagsmálaráðherra, ég sit í fjárlaganefnd nánast daglega og þar er margt athugavert sem þarf að skoða. Og af því að við erum hér með til skoðunar málefni fatlaðra, sem okkur ber að mínu viti að vernda í þeim niðurskurði sem fram undan er, þá er það náttúrlega sérstakt umhugsunarefni að lesa það í fjárlagafrumvarpi að hobbíklúbbur á við Bridgesamband Íslands fái mun hærri fjárframlög en Landssamtökin Þroskahjálp. Eru hlutföllin virkilega svona í samfélagi okkar? Viljum við hafa hlutföllin svona í samfélagi okkar? Ég tek þessari áskorun frá félagsmálaráðherra hæstvirtum um að skoða í þaula það fjárlagafrumvarp sem hér er til umfjöllunar á næstu dögum og vikum, því þar er margt hægt að skoða og endurskoða og ég held að við ættum frekar að sinna fötluðu, sjúku og öldruðu fólki, heldur en fullfrísku fólki sem er að fá ríkispeninga til að sinna tómstundum.