138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

Framkvæmdasjóður fatlaðra.

109. mál
[19:11]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta og fagna því að hv. þingmaður er tilbúinn til að skoða útgjaldaskiptinguna í fjárlagafrumvarpinu með opnum huga fyrir frekari vinnu í fjárlaganefnd. Það er ekkert einfalt að útskýra fyrir fólki sem á afkomu sína undir bótum frá hinu opinbera og hefur ekki valið sér hlutskipti sitt af hverju skerða eigi bætur þess, þegar á sama tíma gætir ákveðins alvöruleysis, að mínu viti, í rekstraráætlunum annars staðar í stjórnkerfinu. Og þær kröfur sem við gerum til velferðarsviðanna eru ekki að fullu leyti í samræmi við aðhaldsstigið annars staðar í kerfinu. Ég held að til að búa til samfélagslega samstöðu um þær aðhaldsaðgerðir sem við þurfum nauðsynlega að ráðast í, skipti mjög miklu máli að fjárlaganefnd taki hlutverk sitt alvarlega og gangi fram af ákveðnum krafti. Af hverju er verið að eyða hundrað milljónum í Þjóðmenningarhús? Ég var nú þarna í gærkvöldi reyndar. En af hverju í ósköpunum þarf þetta að vera opið? Má ekki bara loka þessu? Hver er tilgangurinn með þessu? Hver er tilgangurinn? Hver eru notin af þessu húsi, Þjóðmenningarhúsi? Af hverju má ekki loka þessu? Og svo framvegis.

Við verðum einfaldlega að hugsa hvað má bíða í 36 mánuði. Ég get nefnt nokkra þætti sem ekki mega bíða. Grundvallarþjónusta við fatlað fólk getur ekki beðið. Búsetuúrræði sem voru látin reka á reiðanum hér á mestu góðærisárum Íslandssögunnar mega að mínu viti ekki bíða lengur. Við verðum að reyna að finna leið til að laga það mál. En ýmsir aðrir hlutir mega að ósekju bíða. Það hlýtur að vera verkefni fjárlaganefndar að skoða hvern einasta fjárlagalið með það að markmiði: Má þetta bíða?