138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sérstakt fjárframlag til sparisjóða.

161. mál
[19:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum gengið í ýmis mál, eðli málsins samkvæmt, á sumarþinginu sem lauk í haust og þinginu sem nú stendur. Oftar en ekki hefur verið lögð mikil áhersla á að mikið lægi á. Það verður að segjast eins og er að ég hef metið það svo að eitt af því sem við ættum að geta lært af þeim mistökum sem við höfum gert á undanförnum árum og áratugum væri að leggja góða og faglega vinnu í þau mál sem við göngum frá hér í þinginu. Auðvitað er oft hægt að gera góða hluti hratt en oftar en ekki, og við höfum dæmi um það á þessum síðustu mánuðum, er hætt við mistökum þegar menn vinna hratt. Mikið hefur hins vegar verið lagt upp úr því af stjórnarliðum að sum mál þyldu enga bið.

Eitt af því voru lög um sparisjóði sem talað var fyrir í þinginu 5. júní á þessu ári og markmiðið var að klára það 1. júlí. Þeir stjórnarandstæðingar sem vildu fara vel yfir málið lágu undir ámæli, bæði í þingnefnd og í þingsal, fyrir að vera að þvælast fyrir og vilja sparisjóðum eitthvað annað en það besta. Höfð voru stór orð um það í þessari umræðu í þingnefndinni og í þinginu að gríðarlega mikið lægi á í þessu máli og það átti að klára það á innan við mánuði — þó það hafi tekið eitthvað örlítið lengri tíma — vegna þess að það þyldi enga bið út af þeirri stöðu sem einstakir sparisjóðir væru í. Þannig var unnið í þessu máli að erfitt var að fá upplýsingar um ýmislegt sem tengdist því og því hefur maður beðið svolítið spenntur eftir að sjá afdrif málsins og hvað gerðist í framhaldinu. Við erum hér í miðjum nóvember að ræða þessi mál.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra:

1. Hversu margir sparisjóðir hafa fengið fjárframlag úr ríkissjóði í samræmi við lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og hvenær voru slík framlög þá innt af hendi?

2. Liggja fyrir beiðnir eða áform um slíkt framlag til sparisjóða?

3. Hversu háar fjárhæðir er um að ræða?