138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

sérstakt fjárframlag til sparisjóða.

161. mál
[19:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá fyrirspyrjanda að það hefur reynst býsna torsóttur leiðangur að klára endurskipulagningu sparisjóðanna og þá endurfjármögnun þeirra sem fyrirheit eru gefin um í lögum nr. 125/2008, vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.s.frv. Átta sparisjóðir hafa sótt um eiginfjárframlag úr ríkissjóði á grundvelli þeirra laga. Þær umsóknir hafa síðan verið til meðhöndlunar í fjármálaráðuneytinu og hafa verið unnar í samráði við viðkomandi sparisjóði og Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann.

Enn hafa ekki verið innt af hendi framlög til neins sparisjóðs þó svo að sumir þeirra séu í raun og veru tilbúnir til að taka við þeim. Ástæðan er meðal annars sú að málefni sparisjóðanna eru innbyrðis tengd og það hvernig greiðist úr málum sumra þeirra hefur áhrif á stöðu hinna. Sérstaklega eru það stóru sparisjóðirnir tveir, þeir langstærstu sem eftir eru, það eru Byr og Keflavík, sem þannig er í pottinn búið með.

Eins og hv. þingmenn þekkja er á grundvelli laganna gert ráð fyrir því að hámarksframlag til hvers einstaks sparisjóðs geti numið 20% af eigin fé eins og það var í árslok 2007, að sjálfsögðu að öllum skilyrðum uppfylltum og því að Fjármálaeftirlitið meti þá að viðkomandi stofnun hafi fengið fullnægjandi fjárhagslega endurskipulagningu til þess að fá varanlegt starfsleyfi og uppfylla öll skilyrði.

Miðað við að allir sparisjóðirnir átta sem sótt hafa uppfylli þau skilyrði og fái hámarkseiginfjárframlag úr ríkissjóði gæti upphæðin samtals orðið 17.297 millj. kr. Staða málsins í augnablikinu er sú að enn ein úttektin er í gangi á eignasafni eða stöðu stærstu sparisjóðanna, fyrir atbeina eða tilstilli Fjármálaeftirlitsins. Gert er ráð fyrir að sú niðurstaða liggi fyrir um miðja næstu viku. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að eftir því sem árið hefur liðið og staða þessara sparisjóða hefur verið nánar greind hefur hún reynst veikari en menn höfðu vonað. Það þarf þar af leiðandi meira til, annaðhvort í formi eiginfjár og/eða afskrifta eða niðurfellinga á móti þannig að endurfjármögnunin geti farið fram á fullnægjandi grundvelli og að ekki sé þá í eignasafni viðkomandi sparisjóða fyrirliggjandi svo mikil afskriftarþörf að eigið féð mundi á næstu missirum lenda aftur niður fyrir viðeigandi mörk. Að sjálfsögðu vilja menn ekki leggja upp í leiðangurinn nema tryggt sé að hægt sé að setja stofnanirnar af stað á þeim grundvelli að í því sé traust framtíð.

Ætlunin hefur því verið að reyna að fá botn í þessi mál í þessum mánuði eða á allra næstu vikum. Þetta hefur reyndar verið sagt oft áður, það er alveg hárrétt, en veruleikinn er bara eins og hann er. Þetta hefur reynst mjög torsótt, þetta eru flókin mál. Sparisjóðirnir eru innbyrðis tengdir. Þær kröfur sem mynduðust, sérstaklega við fall Sparisjóðabankans — það hefur reynst flókið úrlausnarefni að sortera þær og meta verð þeirra og tryggja að fullnægjandi eignir stæðu á móti innlánum. Þetta hefur verið viðfangsefni Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins í samstarfi við viðkomandi stofnanir.

Eins og ég hef þegar sagt er það okkar von að lokahrinan í þessu sé nú þegar hafin og það mun draga til tíðinda í þessum efnum á næstu vikum. Það er óumflýjanlegt að málin skýrist. Margt hefur orðið til þess að tefja þetta annað en hin flóknu úrlausnarefni sem slík. Það hefur mætt á sömu aðilum að leiða vinnuna í sambandi við endurfjármögnun og samningagerð milli stóru bankanna. Þar sér sem betur fer fyrir endann á hlutunum. Þannig að allt þetta kerfi og þessar stofnanir hafa verið undir miklu álagi í allri þessari vinnu.

Ég tel engu að síður að góðar horfur séu á því að áður en árið er liðið í aldanna skaut verði því stóra verkefni lokið að koma nýju bönkunum, þessum þremur stóru, á kjöl og ganga endanlega frá bæði fjármögnun þeirra og eignarhaldi, sem og að þá verði lokið þeirri endurskipulagningu sparisjóða og minni fjármálafyrirtækja sem samhliða hefur verið í gangi.